Fram leikur í Bestu deild kvenna á næsta ári
„Þetta var frábær tilfinning; spennufall. Fyrir félagið, leikmennina, starfsfólkið og alla sjálfboðaliðana innan félagsins er þetta æðisleg tilfinning og að gera þetta fyrir framan fulla stúku stuðningsmanna var mjög sætt," sagði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, í viðtali við Fótbolta.net í dag en Framarar komust upp í Bestu deild kvenna um síðustu helgi.
Baráttan um annað sætið í Lengjudeildinnii var hörð en Fram og Grótta enduðu með jafnmörg stig. Fram var þó með mun betri markatölu
„Við vorum í áttunda sæti eftir fyrri umferðina og gerum svo jafntefli við ÍR. Þá vorum við á leið í sex stiga leik við Selfoss... ef við hefðum tapað þeim leik, þá hefðum við farið í fallsæti. Deildin var mjög óútreiknanleg," segir Óskar.
„Við vorum alltaf með markmið; draumamarkmiðið var að fara upp, markmiðið var að enda í topp fjórum og lágmarksmarkmiðið var að gera betur en í fyrra. Okkur óraði ekki fyrir að þetta myndi enda svona eftir fyrri hlutann. Hann var ekkert hræðilegur en við náðum bara ekki úrslitum. Við vinnum Selfoss 2-0 og það var snúningspunktur á okkar tímabili; við skiptum um markmann og breyttum aðeins til hjá okkur. Við töpuðum ekki leik í seinni umferðinni."
Þessum árangri var auðvitað vel fagnað. „Það er mjög langt síðan Fram var með kvennalið í efstu deild. Allir Framarar eru ofboðslega stoltir af því að það sé að gerast núna. Þetta er mikil vinna leikmanna, þjálfara, starfsmanna og sjálfboðaliða sem verður að þessum árangri. Kvöldið var frábært með öllum Framörunum. Við bjuggum til skemmtilegar minningar. Við þurfum að njóta þess á meðan þetta er að gerast því fótboltinn getur líka verið grimmur," segir Óskar.
Verðum að halda áfram þegar við förum upp
Fram lék síðast í efstu deild kvenna árið 1998 en meistaraflokkur félagsins í núverandi mynd var endurreistur árið 2020. Óskar Smári tók við Fram fyrir tímabilið 2022 - fyrst með Anítu Lísu Svansdóttur - en þá var liðið í 2. deild.
„Aníta á stóran hluta í þessari velgengni í ár. Hún á fullt af hrósi skilið þó hún hafi ekki verið með mér á hliðarlínunni í ár. Við eigum þetta saman. Það er mikilvægt að hún fái það hrós sem hún á skilið," segir Óskar.
„Þessi árangur sem við höfum náð hefði aldrei getað orðið ef við hefðum ekki haft fólk innan félagsins sem var tilbúið að fara í þessa vinnu. Ég er að tala um meistaraflokksráð kvenna, ég er að tala um starfsfólk félagsins og leikmennina. Það er frábært fólk á bak við tjöldin sem vinnur vinnuna sína vel. Öflugur starfsmannahópur og öflugur leikmannahópur er til þess að Fram er komið í deild þeirra bestu fyrir næsta ár."
Það hefur mikið breyst á þremur árum Óskars með liðið. Hans fyrsti leikur var æfingaleikur gegn KH sem endaði með 19-0 tapi en núna er liðið komið upp í efstu deild.
„Það hefur margt breyst. Það hafa flestir orðið betri. Við reynum alltaf að horfa inn á við eftir hvert einasta ár. Hvað þurfum við að gera betur? Okkar helsta verkefni er að umgjörðin sé upp á tíu. Við viljum geta talað um að það sé stemning, fjör og partý í dal draumanna og umgjörðin að liðinu sé frábær. Það hefur alltaf verið til staðar," segir Óskar.
„Hlutirnir sem við höfum bætt okkur hvað mest í eru hlutir sem þú sérð ekki alveg út á við. Núna fjárfesti félagið í GPS-mælum sem var gríðarlega mikilvægt. Við erum með tvo styrktarþjálfara, markvarðarþjálfara sem er frábær og öflugan aðstoðarþjálfara. Ég er með stórt og gott teymi með mér. Ég á kannski 3 prósent af þessu á meðan teymið mitt á meirihlutann. Ár eftir ár hugsum við hvernig við verðum betri og við verðum að halda áfram þegar við förum upp í efstu deild."
Erum ekki að koma upp til að heilsa
Núna er það Besta deildin sem bíður á næsta ári. Ertu farinn að hugsa mikið um það?
„Ég reyni að sleppa því að hugsa of mikið um það. Ég er aðallega að hugsa um að anda og njóta þess að vera með fjölskyldunni minni. Ég á fjögurra vikna dóttir og reyni að leyfa mér sjálfum að vera í fríi. En auðvitað fer hugurinn eitthvað þangað."
„Þetta verður verðugt og ærið verkefnið sem ég hlakka gríðarlega til að taka þátt í með félaginu. Við erum ekki bara að koma upp til að heilsa, við ætlum að gera okkur gildandi. Það er gríðarlega mikil vinna framundan," sagði Óskar.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir