Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   fim 12. september 2024 08:41
Elvar Geir Magnússon
Viðskiptaráð leggur til að veðmál verði leyfð hérlendis
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðskiptaráð leggur til að veðmál verði leyfð hérlendis með upptöku starfsleyfa í stað sérleyfa og banna. Þetta kemur fram í pistli sem birtur er á heimasíðu ráðsins.

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir jafn mikið og Íslendingar. Takmarkanir stjórnvalda hafa valdið því að stór og hratt vaxandi hluti þessara veðmála fer fram utan landsteinanna.

Einungis Íslenskar getraunir hafa sérleyfi til að bjóða upp á íþróttaveðmál á Íslandi. Þrátt fyrir það er markaðshlutdeild félagsins fremur lág og nemur 8% í dag. Nær öll íþróttaveðmál fara fram á netinu.

Starfsleyfakerfi verði komið á fót
Viðskiptaráð leggur til að starfsleyfakerfi verði komið á fót á Íslandi samhliða því að fella sérleyfi úr gildi. Sú leið er sambærileg þeirri sem önnur Evrópuríki hafa farið undanfarin ár.

Starfsleyfi fylgi kvöð um að greiða veðmálaskatt sem nemur 22% af spilatekjum. Aðrir en almannaheillafélög munu einnig greiða tekjuskatt af hagnaði.

Starfsleyfum fylgi heimild til að auglýsa veðmál að uppfylltum sambærilegum skilyrðum um framsetningu og birtingar og tíðkast í grannríkjum.

Vinningar spilara í veðmálum hjá starfsleyfishöfum verði skattfrjálsir líkt og vinningar hjá sérleyfishöfum í dag. Aðrir vinningar verði skattskyldir.

Stjórnvöld veðjuðu á rangan hest
„Íslensk stjórnvöld veðjuðu á rangan hest þegar kemur að lagalegri umgjörð veðmálastarfsemi," segir í pistlinum.

„Tillögur Viðskiptaráðs auka atvinnufrelsi og jafnræði þegar kemur að veðmálastarfsemi. Þær auka einnig skatttekjur ásamt því að gera stjórnvöldum kleift að setja veðmálastarfsemi skorður til að tryggja heilbrigða viðskiptahætti og forvarnir. Loks eru þær útfærðar með þeim hætti að almannaheillastarfsemi sem nýtur góðs af núverandi fyrirkomulagi verður ekki fyrir áhrifum af breytingunum. Tímabært er að skipta um hest, hverfa frá 100 ára banni við veðmálum hérlendis og færa löggjöfina til samræmis við nútímann."

Hér má lesa pistilinn í heild
Athugasemdir
banner
banner
banner