Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   þri 27. ágúst 2024 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Segir umtalað kaupverð alls ekki rétt - „Kemur með nýja hluti inn í okkar lið"
Fyrsti leikur Skoglund var í rigningunni gegn Breiðabliki.
Fyrsti leikur Skoglund var í rigningunni gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom til Vals skömmu fyrir gluggalok fyrr í þessum mánuði.
Kom til Vals skömmu fyrir gluggalok fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Valur
Svíinn Albin Skoglund var keyptur til Vals undir lok félagaskiptagluggans. Hann er 27 ára og kom frá Utsikten í sænsku B-deildinni.

Valur hefur fengið gagnrýni fyrir kaupin á Skoglund. Þjálfari Vals, Srdjan Tufegdzic eða Túfa eins og hann er alltaf kallaður, ræddi um leikmanninn sem kom við sögu í sínum þriðja leik um liðna helgi.

Þegar Skoglund var fenginn til Vals var fjallað um hann sem sóknarmann, en hann er ansi fjölhæfur sem slíkur.

„Hann getur spilað sem átta, tía og á kantinum. Það var möguleiki, og mér leist mjög vel á að fá hann. Þegar ég var hjá Öster þá reyndum við að fá hann en það gekk ekki þar sem hann var samningsbundinn og Utsikten í baráttunni við okkur. Við erum líka að hugsa til lengri tíma en bara til þessa tímabils með þessum kaupum, hann er á góðum aldri og með eiginleika sem geta nýst okkur vel," segir Túfa og nefnir að Skoglund taki kröftug hlaup inn fyrir varnir andstæðinganna.

Valsmenn vildu auka við breiddina hjá sér eftir að Adam Ægir Pálsson fór til Perugia og Guðmundur Andri Tryggvason fór til KR í glugganum.

„Hann er að koma vel inn og mér fannst hann spila vel í fyrri hálfleiknum gegn Vestra. Hann kemur með nýja hluti inn í okkar lið. Hann kom á svolítið erfiðum tímapunkti, við vorum að spila þétt og fáar alvöru fótboltaæfingar. Hann mun nýtast okkur vel í framtíðinni."

Fjallað var um það í sænska fjölmiðlinum Aftonbladet að Skoglund hefði verið keyptur á 500 þúsund sænskar krónur, eða um sjö milljónir íslenskra króna. Fótbolti.net fjallaði um þennan verðmiða í fréttum um Skoglund. Túfa var snöggur að benda á að þetta væri alls ekki réttur verðmiði.

„Verðmiðinn sem talað var um er ekki réttur. Það þarf bara einhver að skrifa eitthvað einhvers staðar og það er svo gripið og fjallað um það. Það hjálpar ekki leikmanni að það sé verið að fjalla um háan verðmiða. Því getur fylgt óþarfa pressa eða umræða um leikmann sem hafði ekki haft tækifæri til að sýna hvað hann getur á vellinum. Verðmiðinn er langt frá því að vera sá sem var nefndur í sænskum fjölmiðlum, það er mikill munur."

„Skoglund er góður karakter, góður leikmaður, á góðum aldri og líka hugsaður fyrir framtíðina. Það var tækifæri til að taka hann núna í glugganum og við gripum það,"
segir Túfa.

Hann var í byrjunarliðinu gegn Vestra á sunnudag og átti nokkuð stóran þátt í sigrinum þar sem brotið var á honum snemma leiks og urðu afleiðingarnar þær að Vestri lék restina af leiknum manni færri.
Athugasemdir
banner