Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   þri 27. ágúst 2024 21:33
Brynjar Ingi Erluson
Spánn: Olmo hetjan í frumraun sinni með Barcelona
Dani Olmo og Lamine Yamal fagna sigurmarkinu
Dani Olmo og Lamine Yamal fagna sigurmarkinu
Mynd: Getty Images
Spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo gat ekki beðið um betri byrjun með Barcelona en hann gerði sigurmark liðsins í 2-1 sigrinum á Rayo Vallecano í La Liga í kvöld.

Barcelona keypti Olmo frá RB Leipzig í síðasta mánuði en gat ekki skráð hann hjá La Liga og missti hann því af fyrstu tveimur deildarleikjum tímabilsins.

Börsungar náðu að redda þessu fyrir leikinn gegn Rayo í kvöld en Olmo kom inn af bekknum í hálfleik, þá í stöðunni 1-0 fyrir Rayo.

Olmo var felldur í teignum stuttu eftir að hann kom inná en dómarinn dæmdi ekkert.

Gestirnir jöfnuðu metin þegar hálftími var eftir. Pedri gerði markið eftir stoðsendingu Raphinha. Tuttugu mínútum fyrir leikslok kom Robert Lewandowski boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu.

Þremur mínútum fyrir lok leiksins kom sigurmark Börsunga en auðvitað var það Olmo sem gerði það. Lamine Yamal keyrði hægra megin inn í teiginn, lagði hann út í teigin á Olmo sem fékk allan tímann í heiminum til að leggja boltann fyrir sig og teikna hann í vinstra hornið.

Draumabyrjun hjá Olmo og Barcelona á tímabilinu en Börsungar hafa unnið alla þrjá leiki sína á meðan Rayo Vallecano er með fjögur stig.

Real Mallorca og Sevilla gerðu markalaust jafntefli fyrr í dag. Leikurinn var fínasta skemmtun fyrir áhorfendur og nóg af færum en eina sem vantaði voru mörkin. Saul Niguez, miðjumaður Sevilla, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks. Hann braut á leikmanni Mallorca en var rekinn af velli fyrir kjaftbrúk.

Sevilla hélt út og nældi í annað stig sitt eins og Mallorca.

Mallorca 0 - 0 Sevilla
Rautt spjald: Saul Niguez, Sevilla ('89)

Rayo Vallecano 1 - 2 Barcelona
1-0 Unai Lopez ('9 )
1-1 Pedri ('60 )
1-2 Dani Olmo ('82 )
Athugasemdir
banner
banner
banner