Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   mið 28. ágúst 2024 19:18
Ívan Guðjón Baldursson
Koopmeiners kominn til Juventus (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Ítalska stórveldið Juventus hefur gengið frá félagaskiptum fyrir Teun Koopmeiners sem kemur til félagsins úr röðum Atalanta.

Koopmeiners er gríðarlega öflugur miðjumaður sem er af mörgum talinn vera einn af allra bestu miðjumönnum ítalska boltans í dag. Hann var eftirsóttur af félögum víða um Evrópu en var staðráðinn í að skipta til Juve, þar sem hann hlakkar til að vera í lykilhlutverki undir stjórn Thiago Motta. Liverpool er meðal félaga sem sýndi miðjumanninum áhuga.

Koopmeiners er þriðji miðjumaðurinn sem gengur til liðs við Juve í sumar eftir komu Khéphren Thuram frá Nice og Douglas Luiz frá Aston Villa. Þá er félagið einnig búið að krækja sér í menn á borð við Francisco Conceicao frá Porto, Nico González frá Fiorentina og Pierre Kalulu frá Milan.

Hinn 26 ára gamli Koopmeiners hefur verið algjör lykilmaður á miðjunni hjá Atalanta frá komu sinni til félagsins, sem vann Evrópudeildina í byrjun sumars. Koopmeiners var valinn í draumalið tímabilsins í Evrópudeildinni.

Koopmeiners á 21 landsleik að baki fyrir Holland en missti af EM í sumar vegna meiðsla.

Juve er talið greiða um 60 milljónir evra fyrir Koopmeiners sem mun gera hann að dýrasta miðjumanni í sögu ítalska boltans. Ekkert ítalskt félag hefur áður borgað 60 milljónir eða meira fyrir miðjumann, að undanskildum afar furðulegum félagaskiptum Arthur til Juve sumarið 2020 þegar Miralem Pjanic fór til Barcelona í staðinn.

Juve borgaði þá um 80 milljónir evra fyrir Arthur á meðan Barca borgaði um 60 milljónir fyrir Pjanic.


Athugasemdir
banner
banner
banner