Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   mið 28. ágúst 2024 15:00
Elvar Geir Magnússon
Nunez fékk fimm leikja bann
Nunez spilar ekki með Úrúgvæ næstu fimm landsleiki.
Nunez spilar ekki með Úrúgvæ næstu fimm landsleiki.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Darwin Nunez hefur verið dæmdur í bann í fimm landsleiki fyrir að hafa lent í átökum við áhorfendur þegar Úrúgvæ tapaði gegn Kólumbíu í Copa America.

Þessi 25 ára sóknarmaður Liverpool lenti í handalögmálum við kólumbíska stuðningsmenn í stúkunni eftir undanúrslitaleikinn í júlí.

Fótboltasamband Suður-Ameríku tilkynnti í dag að fimm leikmenn, þar á meðal Nunez, hefðu verið dæmdir í bann og alls ellefu fengið sektir.

Rodrigo Bentancur miðjumaður Tottenham var dæmdur í fjögurra leikja bann. Mathias Olivera varnarmaður Napoli, Ronald Araujo varnarmaður Barcelona og Jose Maria Gimenez varnarmaður Atletico Madrid fengu allir þriggja leikja bann.

Eins og áður segir er um að ræða bann í næstu landsleikjum.

Leikmennirnir fóru upp í þann hluta stúkunnar þar sem fjölskyldumeðlimir þeirra voru staðsettir á leiknum en læti höfðu þá brotist út. Kólumbískir stuðningsmenn köstuðu flöskum og öðru lauslegu í átt að stuðningsmönnum Úrúgvæ.

„Þetta er stórslys. Fjölskyldur okkar voru í hættu. Við þurfum að fara upp í stúku til að fjarlægja ástvini og lítil börn. Sum sem voru kornung. Þetta er eitt stórt stórslys. Það var ekki einn lögreglumaður á svæðinu,“ sagði Jose Maria Gimenez, fyrirliði Úrúgvæ, eftir leikinn.

Leikbönnin eru högg fyrir Marcelo Bielsa landsliðsþjálfara Úrúgvæ. Næsti landsleikur Úrúgvæ er gegn Paragvæ þann 6. september, í undankeppni HM.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner