Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   mið 28. ágúst 2024 20:08
Ívan Guðjón Baldursson
Sádi-Arabía: Jói Berg lagði upp - Mitrovic hetjan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Það fóru þrír leikir fram í efstu deild í Sádi-Arabíu í dag þar sem Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliðinu hjá nýliðum Al-Orubah.

Al-Orubah heimsótti Al-Wehda og lenti undir strax á fyrstu mínútu þegar Odion Ighalo skoraði. Gestirnir náðu þó að jafna fyrir leikhlé eftir stoðsendingu frá Jóhanni Berg Guðmundssyni og hélst staðan jöfn allt þar til í lokin.

Heimamönnum í Al-Wehda tókst þá að gera sigurmark í uppbótartíma og eru Ighalo og félagar komnir með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðirnar á nýju tímabili. Al-Orubah er án stiga.

Aleksandar Mitrovic var þá hetjan er ríkjandi meistarar Al-Hilal héldu fullkominni byrjun á nýju tímabili áfram.

Al-Hilal tók á móti Damac og tók forystuna undir lok fyrri hálfleiks eftir mark frá Mitrovic. Gestirnir náðu þó að snúa stöðunni við í upphafi síðari hálfleiks og lentu heimamenn í Al-Hilal í miklum vandræðum.

Þeir áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi en tókst að jafna á 73. mínútu, áður en Mitrovic gerði sigurmarkið á lokakaflanum eftir undirbúning frá Renan Lodi.

Sergej Milinkovic-Savic, Rúben Neves, Kalidou Koulibaly og Bono voru meðal byrjunarliðsmanna Al-Hilal.

Að lokum vann Al-Ettifaq sigur gegn Al-Akhdoud þökk sé sigurmarki frá Moussa Dembele, fyrrum leikmanni Lyon, Atlético Madrid, Celtic og Fulham.

Steven Gerrard þjálfar Al-Ettifaq og er liðið búið að vinna tvo fyrstu leikina á nýju tímabili án þess að fá mark á sig. Georginio Wijnaldum og Seko Fofana voru meðal byrjunarliðsmanna í dag.

Al-Wehda 2 - 1 Al-Orubah
1-0 Odion Ighalo ('1)
1-1 Z. Al-Hanety ('33)
2-1 M. Khadhari ('93)

Al-Hilal 3 - 2 Damac
1-0 Aleksandar Mitrovic ('45+5)
1-1 F. Kamano ('49)
1-2 Habib Diallo ('53)
2-2 M. Al-Juwayr ('73)
3-2 Aleksandar Mitrovic ('84)

Al-Ettifaq 1 - 0 Al-Akhdoud
1-0 Moussa Dembele ('63)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner