„Þetta var hörkuleikur milli tveggja góðra liða, það er alltaf erfitt að spila við KA á Akureyrarvelli. Mér hefur í gegnum tíðina fundist það mjög erfitt þannig ég er bara ánægður að fá eitt stig, við jöfnum þarna í restina og við fögnum stiginu,“ sagði Óli Jó þjálfari Vals eftir dramatískt jöfnunamark á 93 mínútu gegn KA á Akureyri í fjörugum leik.
Lestu um leikinn: KA 3 - 3 Valur
Valur skoraði fyrsta mark leiksins en KA komst tvívegis yfir áður en Valur jafnaði á lokamínútunum.
„Mér fannst við rokkandi, við vorum ekki nógu klókir í ákveðnum stöðum. Við byrjum leikinn vel og sérstaklega eftir að við skorum þá eigum við bara að klára leikinn en fótboltinn er nú sérstakur, það breytist mikið við að fá á okkur mark. Við eigum að geta gert betur en þetta.“
Kristinn Freyr átti skot af stuttu færi inn í teig sem fór í hausinn á Bjarna Mark. Bjarni rotaðist í kjölfarið en Valur var í kjörstöðu á þeim tímapunkti að skora annað mark og voru ekki sáttir við að leikurinn væri stoppaður. Þeir róuðust þó fljótt þegar þeir áttuðu sig á alvarleika meiðslana.
„Hann varð að stoppa leikinn, hann gat ekkert annað. Það var ljóst að þetta var feiknar högg sem hann fékk og hann bjargaði nú marki með því þannig að þegar hann vaknar úr rotinu þá verður hann örugglega ánægður.“
Valur er á toppnum með 40 stig, einu stigi meiri en Stjarnan sem fylgir fast í öðru sætinu.
„Það er bara barátta framundan, mikill barátta og við verðum að halda vel á spöðunum ef við ætlum að vinna þetta mót en ég held það eigi margt eftir að gerast þannig við bara höldum áfram og sækjum sigur í næsta leik.“
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir