Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 04. mars 2024 13:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kaup sem komu eins og þruma úr heiðskíru lofti - „Þetta er draumurinn"
Væntanlega dýrasti leikmaður í sögu Þórs
Lengjudeildin
Birkir Heimisson.
Birkir Heimisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það má segja að það sé mikil yfirlýsing fyrir Þór að fá Birki heim.
Það má segja að það sé mikil yfirlýsing fyrir Þór að fá Birki heim.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórsarar ætla sér stóra hluti í sumar.
Þórsarar ætla sér stóra hluti í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þau stóru tíðindi bárust síðastliðið föstudagskvöld að Þór á Akureyri hefði endurheimt Birki Heimisson frá Val. Það má segja að þessi félagaskipti hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Birkir er uppalinn í Þór en félagið seldi hann til Heerenveen í Hollandi árið 2016 en hann sneri aftur heim til Íslands árið 2020 og samdi við Val. Þar hefur hann leikið síðan. Núna er hann mættur aftur hem á Akureyri.

„Það er mikill metnaður hjá stjórn og þjálfarateymi félagsins. Þegar menn voru að horfa yfir markaðinn þá ákváðum við að þreifa á því hvort það væri möguleiki að fá Birki. Við athugum fyrst með að fá hann á láni og ég var svo sem búinn að óska eftir því oftar en einu sinni. Og ég var búinn að fá höfnun á því oftar en einu sinni," sagði Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, í samtali við Fótbolta.net í dag.

En svo gekk þetta að lokum upp. Var hann að búast við því að þetta myndi takast?

„Já, við áttum alveg eins von á því. Þess vegna létum við bara vaða í það. Viðræðurnar gengu mjög vel. Við vorum mjög fljótir að ná samkomulagi við Valsarana. Þegar það var komið þá þekkir þjálfarinn okkar auðvitað mjög vel til Birkis. Ég held að hann hafi sannfært hann um það verkefni sem er í gangi hjá okkur og það væri spennandi, þó það væri deild neðar en það sem hann var að gera. "

„Tilfinningin er geggjuð, algjörlega geggjuð. Þetta er draumurinn því að Birkir er á hátindi ferilsins og grjótharður Þórsari. Með fullri virðingu fyrir öðrum leikmönnum sem hafa kannski ekki tilfinningaleg tengsl til félagsins þá er þetta miklu stærra fyrir okkur en nokkuð annað."

Metnaðarfull kaup
Sögur hafa farið af stað um að Birkir sé dýrasti leikmaður í sögu Þórsara.

„Ég hef nú bara verið hérna síðan í apríl sem hluti af stjórn knattspyrnudeildar og man hreinlega ekki eftir því að Þór hafi keypt marga leikmenn í gegnum tíðina. Að því sögðu liggur eiginlega í augum uppi að þetta séu dýrustu kaupin. Samtalið við Val var gott og við vorum fljótir að ná samkomulagi og þeir átta sig á því að við sitjum ekki á seðlum sem safna innlánsvöxtum," segir Sveinn Elías en það er alveg hægt að færa rök fyrir því að þessi kaup sýni metnaðinn hjá Þór fyrir sumarið.

„Ég held að það megi alveg segja það. Síðan ný stjórn kom inn í vor þá hafa menn verið á fullu sem sjálfboðaliðar og að reyna að afla fjármagns til að reka þetta. Það er mjög erfitt eins og staðan er í dag. Þegar þetta kom upp þá sáum við grundvöll fyrir því að við gætum gert þetta. Ég heyrði sögur af því að það væru velunnarar og mögulega landsþekktir aðilar að fjármagna þessi kaup en ég get alveg staðfest við þig að það er ekki neitt slíkt í gangi."

Allt að smella saman
Er von á fleiri stórum félagaskiptum úr Þorpinu á næstu dögum eða vikum?

„Þú verður bara að fá að fylgjast með held ég," sagði Sveinn Elías léttur. „Það er ekki þannig að við séum hættir að horfa yfir en við erum mjög ánægðir með þann hóp sem við erum með í höndunum núna og mjög ánægðir með teymið. Þetta er allt að smella saman. Það er enginn æsingur í okkur."

Hér fyrir neðan má sjá viðtal sem var tekið við Birki fyrr í dag þar sem rætt var um félagaskipti hans yfir í Þór.
Birkir aftur heim í Þorpið - „Búið að vera í hausnum á manni lengi"
Athugasemdir
banner