sun 05. janúar 2020 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fékk óvænt tækifæri - Í skemmtilegu viðtali eftir leik
Með bros á vör í leiknum.
Með bros á vör í leiknum.
Mynd: Getty Images
Hinn 19 ára gamli Osaze Urhoghide lék sinn fyrsta leik fyrir Sheffield Wednesday í gær. Hann var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn er Wednesday sló úrvalsdeildarlið Brighton úr leik í enska bilkarnum.

Hann átti mjög góðan leik í hægri bakvarðarstöðunni og var ekki að sjá að hann væri að spila sinn fyrsta leik.

Í viðtali eftir leik gat hann ekki hætt að brosa; draumur að rætast hjá honum.

„Vá. Þetta var frábært. Þetta var einn besti mögulegi leikurinn til að spila sinn fyrsta leik; mikið af áhorfendum. Þvílíkt svið," sagði hann í skemmtilegu viðtali.

„Það kom mér á óvart að ég byrjaði, en ég var ánægður. Fólk skilur ekki hvað ég hef gengið í gegnum og þá erfiðisvinnu sem ég hef lagt á mig. Þetta er draumur að rætast."

Hann fékk ekki nýjan samning hjá C-deildarfélaginu Wimbledon síðasta sumar, en gafst ekki upp.

„Ég vissi ekki hvar ég myndi enda. Ég treysti á sjálfan mig, ég vissi að ég væri nægilega góður til að fá félag einhvers staðar. Það kom mér á óvart þegar ég fékk tækifæri hjá Sheffield Wednesday. Ég kom á reynslu og skrifaði svo undir."

„Þetta var stórt skref og í fyrsta sinn sem ég hef búið í burtu frá fjölskyldu minni. Þetta er ný reynsla fyrir mig og ég hef þurft að aðlagast nýrri menningu og nýju fólki. Ég er búinn að koma mér vel fyrir núna og líður vel."

Faðir hans og bróðir hans komu frá London til að horfa á hann í gær. „Pabbi fór með mig á æfingu þegar ég var yngri. Það var frábært að spila vel fyrir framan hann."

Þetta frábæra viðtal við þennan unga leikmann má sjá hér að neðan.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner