Greenwood eftirsóttur - Isak til PSG? - Chelsea vill gera skiptidíl við Inter
   lau 21. september 2024 16:12
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool aftur á sigurbraut - Annar sigur Tottenham
Luis Díaz er sjóðandi heitur
Luis Díaz er sjóðandi heitur
Mynd: Getty Images
Darwin Nunez skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu
Darwin Nunez skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu
Mynd: EPA
James Maddison og Heung-Min Son áttu góðan leik í liði Tottenham
James Maddison og Heung-Min Son áttu góðan leik í liði Tottenham
Mynd: Getty Images
Jhon Duran heldur áfram að heilla inn af bekknum
Jhon Duran heldur áfram að heilla inn af bekknum
Mynd: Getty Images
Everton er áfram á botninum
Everton er áfram á botninum
Mynd: Getty Images
Arne Slot og lærisveinar hans í Liverpool eru komnir aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið Bournemouth, 3-0, á Anfield í dag.

Bournemouth taldi sig hafa fengið draumabyrjun á 4. mínútu er Antoine Semenyo kom boltanum í netið. Tony Harrington, dómari leiksins, dæmdi mark úti á velli, en það var tekið af eftir skoðun VAR þar sem Semenyo var í rangstöðu.

Eftir rangstöðumarkið var Kepa Arrizabalaga, markvörður Bournemouth, í því að verja frá Liverpool-mönnunum. Hann átti nokkrar úrvalsvörslur, en gerði síðan slæm mistök þegar Liverpool tók forystuna á 26. mínútu.

Trent Alexander-Arnold átti langan bolta fram völlinn á Díaz. Kepa hljóp út úr markinu og ætlaði að mæta Díaz, en hætti við sem gaf Díaz svigrúm til að koma boltanum framhjá Kepa og leggja boltann í netið.

Tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Díaz forystuna. Alexander-Arnold átti gott samspil með Mohamed Salah áður en hann hljóp í átt að teignum, lagði boltann vinstra megin á Díaz sem setti boltann á milli fóta hjá Kepa.

Úrúgvæski framherjinn Darwin Nunez fékk langþráð tækifæri í byrjunarliði Liverpool og þakkaði traustið með glæsilegu marki á 37. mínútu. Nunez fékk boltann úti vinstra megin, setti hann á vinstri fótinn og smellti honum í fjærhornið, stöngin inn. Hans fyrsta mark á tímabilinu.

Liverpool fékk urmul af færum til þess að ganga frá leiknum. Salah og Nunez komu sér í góðar stöður og þá kom varamaðurinn Federico Chiesa með öfluga innkomu.

Chiesa var að spila sinn fyrsta deildarleik. Fyrst átti hann skot á markið sem Kepa varði og síðan fór annað skot hans í stöng, en búið var að flagga rangstöðu.

Bournemouth fékk nokkur færi til að koma sér inn í leikinn. Luis Sinisterra átti skot í þverslá og síðan bjargaði Kelleher eftir að skot hafði viðkomu af Alexander-Arnold.

Góður 3-0 sigur hjá Liverpool sem er með 12 stig úr fjórum leikjum og fer tímabundið á toppinn. Bournemouth hins vegar með 5 stig í 13. sæti.

Tottenham vann Brentford og Everton enn í leit að fyrsta sigrinum

Tottenham vann annan leik sinn í ensku úrvalsdeildinni er liðið lagði Brentford að velli, 3-1.

Gestirnir í Brentford vilja byrja leikina hratt og það var raunin í dag. Keane Lewis Potter kom með laglega sendingu á Bryan Mbeumo sem hamraði boltanum í fyrstu snertingu í netið.

Skellur fyrir Tottenham sem brást þó við um leið. Dominic Solanke jafnaði metin. Hann getur þakkað James Maddison sem átti skot sem Mark Flekken varði út á Solanke sem gerði sitt fyrsta mark í treyju Tottenham.

Brennan Johnson, sem hefur verið á allra vörum síðustu daga, gerði annað markið á 28. mínútu. Hann hefur fengið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum frá stuðningsmönnum Tottenham vegna frammistöðu sinnar, en hann er nú kominn með tvö mörk í síðustu tveimur leikjum.

Eitt áhugavert atvik átti sér stað í síðari hálfleiknum er Guglielmo Vicario, markvörður Tottenham, handlék boltann utan teigs, en var stálheppinn að sleppa við refsingu.

James Maddison gulltryggði sigurinn fimm mínútum fyrir leikslok eftir stoðsendingu Heung-Min Son. Lokatölur 3-1 og annar sigur Tottenham í höfn.

Nýliðar Leicester gerðu 1-1 jafntefli við Everton. Iliman Ndiaye kom Everton á bragðið á 12. mínútu en liðinu hefur gengið hrikalega illa að loka leikjum.

Fimmtán mínútum fyrir leikslok jafnaði Stephy Mavididi metin og tryggði Leicester stig. Bæði lið enn í leit að fyrsta sigri tímabilsins, en Leicester er með þrjú stig á meðan Everton er á botninum með eitt stig.

Endurkoma hjá Aston Villa - Newcastle tapaði

Aston Villa vann 3-1 endurkomusigur á Wolves.

Matheus Cunha kom Úlfunum í 1-0 á 25. mínútu og var staðan óbreytt í hálfleik.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok jafnaði Ollie Watkins metin eftir sendingu Morgan Rogers áður en Ezri Konsa kom Villa í forystu eftir fyrirgjöf Youri Tielemans.

Ofurvaramaðurinn Jhon Duran gerði síðan þriðja markið í uppbótartíma. Fjórða sinn á tímabilinu sem hann kemur inn af bekknum og skorar.

Aston Villa fer upp í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig en Úlfarnir í næst neðsta sæti með 1 stig.

Fulham vann óvæntan 3-1 sigur á Newcastle. Raul Jimenez og Emile Smith-Rowe komu Fulham í 2-0 áður en Harvey Barnes minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik.

Reiss Nelson tryggði síðan sigurinn undir lok leiks. Fulham er með 8 stig en Newcastle 10 stig.

Southampton og Ipswich gerðu 1-1 jafntefli í nýliðaslag. Tyler Dibling skoraði mark Southampton á 5. mínútu en Sam Morsey tryggði Ipswich stig með marki seint í uppbótartíma. Bæði lið eru án sigurs í deildinni, en Ipswich er með 3 stig á meðan Southampton er með 1 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Aston Villa 3 - 1 Wolves
0-1 Matheus Cunha ('25 )
1-1 Ollie Watkins ('73 )
2-1 Ezri Konsa ('88 )
3-1 Jhon Duran ('90 )

Fulham 3 - 1 Newcastle
1-0 Raul Jimenez ('5 )
2-0 Emile Smith-Rowe ('22 )
2-1 Harvey Barnes ('46 )
3-1 Reiss Nelson ('90 )

Leicester City 1 - 1 Everton
0-1 Iliman Ndiaye ('12 )
1-1 Stephy Mavididi ('73 )

Liverpool 3 - 0 Bournemouth
1-0 Luis Diaz ('26 )
2-0 Luis Diaz ('28 )
3-0 Darwin Nunez ('37 )

Southampton 1 - 1 Ipswich Town
1-0 Tyler Dibling ('6 )
1-1 Sam Morsy ('90 )

Tottenham 3 - 1 Brentford
0-1 Bryan Mbeumo ('1 )
1-1 Dominic Solanke ('8 )
2-1 Brennan Johnson ('28 )
3-1 James Maddison ('85 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner