Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   mán 26. ágúst 2024 16:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég held að þetta muni ekki gerast"
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Erling Haaland er algjör markamaskína.
Erling Haaland er algjör markamaskína.
Mynd: Getty Images
Það er mikill áhuga á Orra Steini Óskarssyni um þessar mundir og þar á meðal frá Englandsmeisturum Manchester City. David Ornstein, einn áreiðanlegasti fótboltablaðamaður Bretlandseyja, sagði frá því í gær að Orri væri undir smásjá City.

Tipsbladet í Danmörku ræddi við Sam Lee, sem skrifar um City fyrir The Athletic, og spurði hann frekar út í áhugann á íslenska landsliðsframherjanum.

„Ég held að þetta muni ekki gerast en ég veit að City hefur skoðað tvo framherja; Orra Stein og Kyogo Furuhashi hjá Celtic. Ég heyrði að síðustu viku að Pep (Guardiola) teldi að hann þyrfti örugglega ekki annan sóknarmann," segir Lee.

Ef Orri endar hjá City, þá verður hann í samkeppni við Erling Haaland sem hefur verið markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar síðustu tvö tímabil.

„Hugsunin er að fá inn sóknarmann sem væri þá bara sáttur að vera hjá City, jafnvel þótt hann myndi ekki spila mikið. Það væri þá ekkert drama ef hann myndi ekki spila mikið."

„Ef Orri endar hjá City þá mun félagið líklega líta á hann sem ákveðið verkefni. Hann getur þá þróað sig og lært hjá City. Hvaða sóknarmaður sem er keyptur verður varamaður fyrir Haaland."

Lee telur það möguleika að City hafi fundið Orra Stein þegar Englandsmeistararnir mættu FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni á síðasta tímabili. Orri átti frábæra stoðsendingu í því einvígi.

Það er mikill áhugi á hinum 19 ára gamla Orra víða um Evrópu og verður áhugavert að sjá hvort að hann yfirgefi dönsku höfuðborgina áður en glugginn lokar á næstu dögum.
Enski boltinn - Ten Hag tíminn, Noni í stuði og Guardiolabolti í Liverpool
Athugasemdir
banner
banner
banner