Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 29. nóvember 2021 21:22
Brynjar Ingi Erluson
Rúnar Már aftur á skotskónum - Elfsborg tapaði mikilvægum leik
Rúnar Már skoraði annan leikinn í röð
Rúnar Már skoraði annan leikinn í röð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Rafn Ólafsson var á bekknum hjá Midtjylland
Elías Rafn Ólafsson var á bekknum hjá Midtjylland
Mynd: Getty Images
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði annað mark rúmenska liðsins Cluj sem vann 2-0 sigur á Academica Clinceni í deildinni í kvöld en Rúnar er að koma til baka eftir meiðsli og er þetta annar leikurinn í röð sem hann skorar.

Miðjumaðurinn knái meiddist í september og hafði aðeins spilað 75 mínútur fram að leiknum í dag en hann skoraði einmitt í 2-0 sigri Cluj á Craiova í síðustu umferð eftir að hafa komið inn af bekknum.

Hann var í byrjunarliði Cluj í fyrsta sinn síðan í lok ágúst í dag og skoraði annað mark liðsins á 29. mínútu. Hann fór af velli á 69. mínútu en Cluj er áfram í efsta sæti deildarinnar með 45 stig, átta stigum meira en næsta lið.

Sveinn Aron og félagar töpuðu fyrir AIK

Elfsborg er enn í baráttu um Evrópusæti þrátt fyrir 4-2 tap gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Sveinn Aron Guðjohnsen kom inná sem varamaður á 83. mínútu leiksins en Hákon Rafn Valdimarsson sat á tréverkinu.

Elfsborg er í 4. sæti deildarinnar með 52 stig, tveimur stigum minna en Djurgården sem er í þriðja sæti fyrir lokaumferðina. Malmö og AIK berjast um titilinn í lokaumferðinni en Malmö er með 58 stig á meðan AIK er með 56 stig.

Oskar Sverrisson kom þá inná sem varamaður er Häcken tapaði fyrir Sirius, 3-0. Hann spilaði síðustu fimm mínútur leiksins á meðan Valgeir Lunddal Friðriksson sat sem fastast á bekknum.

Elías Rafn Ólafsson var á bekknum í 1-1 jafntefli Midtjylland gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni. Jonas Lössl virðist vera kominn með markmannssætið. Þetta er þriðji leikurinn í röð sem Elías þarf að sæta sig við bekkjarsetu.
Athugasemdir
banner
banner
banner