Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
banner
   fim 30. maí 2024 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Pikkum ekki bara einhvern upp úr 2. eða 3. flokki til þess að skreyta okkur með því"
Jökull Elísabetarson.
Jökull Elísabetarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Orri og Alexander Máni á æfingu með unglingaliði FCK.
Gunnar Orri og Alexander Máni á æfingu með unglingaliði FCK.
Mynd: Aðsend
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var til viðtals í gær. Hann var spurður út í Alexander Mána Guðjónsson. Alexander Máni er fjórtán ára, fæddur árið 2009.

Alexander kom inn á í leiknum gegn KA um liðna helgi, þreytti þar frumraun sína í efstu deild.

Jökull ræddi um komandi leik gegn Val í viðtalinu í gær. Þegar hann var spurður út í meiðsli í hópnum sagði hann:

„Það vantar eitthvað (af mönnum), en við höfum engar áhyggjur af því. Það eru alltaf einhverjir sem koma inn í staðinn. Við höfum verið með öfluga menn á bekknum og ungir strákar hafa komið inn og látið til sín taka sem er skemmtilegt. Þeir eru ekki bara að koma inn á til að koma inn á, heldur til þess að hjálpa liðinu. Það er alltaf skemmtilegt þegar það myndast tækifæri fyrir aðra til að koma inn."

Stjarnan gaf nokkrum ungum leikmönnum séns á undirbúningstímabilinu og Alexander fékk núna kallið í deildarleik. Jökull var spurður hvort hann væri ekkert stressaður að setja þetta unga leikmenn inn á völlinn.

„Ég held ég myndi ekkert setja þá inn á ef ég væri eitthvað stressaður yfir því. Ef við ræðum Alexander þá hefur hann verið mikið með okkur í vetur, spilaði fullt af leikjum og skoraði. Hann er búinn að hafa mikið fyrir þessu, er með sterkan haus sem skiptir miklu máli, það fer enginn svona ungur inn á ef maður hefur minnstu áhyggjur af því að hausinn geti farið. Þetta getur farið illa í unga menn."

„Við erum með fleiri unga leikmenn, Gunnar Orra (Olsen, verðandi leikmann FCK) sem er framúrskarandi. Hann er árinu eldri, fimmtán ára. Það er bara skemmtilegt þegar þetta ungir menn sýna að þeir séu tilbúnir að taka næsta skref. Það er bara gaman og ekkert stress sem fylgir því."

„Það er þannig að þessir strákar sem eru að koma inn eru yfirleitt búnir að vera mikið með okkur, mikið í kringum það sem við erum að gera. Við pikkum ekki bara einhvern upp úr 2. eða 3. flokki til þess að skreyta okkur með því, þetta er af því að við erum að reyna ýta við þeim, ýta þeim leingra og þeir geta yfirleitt hjálpað okkur eitthvað líka."

„Alexander er það ungur að þetta lítur kannski út fyrir að vera pepp fyrir hann, en hann kom inn agressífur, var að keyra inn í menn sem var bara skemmtilegt,"
sagði Jökull.

Leikurinn gegn Val hefst klukkan 18:00.
Athugasemdir
banner
banner