
„Þetta var ótrúlega svekkjandi. Mér fannst við eiga meira skilið úr þessum leik en 0 stig,“ sagði Hildur Antonsdóttir sem átti góðan leik á miðsvæðinu hjá Íslandi í 1-0 tapi gegn Danmörku.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Danmörk
„Við spiluðum fyrri hálfleikinn mjög vel og áttum þann hálfleik. Svo komu þær kannski aðeins sterkari í seinni hálfleik en voru samt ekkert að yfirspila okkur. Við áttum fullt af sénsum líka. Að fá 0 stig úr þessu er ótrúlega svekkjandi.“
Frammistaðan í síðasta leik var mikil vonbrigði en það var allt önnur ára yfir íslenska liðinu í kvöld. Hver var munurinn?
„Við þorum að halda í boltann. Við vissum alveg að við getum það en það þarf að þora því. Mér fannst það mesti munurinn á gluggunum. Við vörðumst alveg vel í síðasta glugga en nú erum við búnar að bæta spilkaflann og við getum haldið því áfram í næsta leik,“ sagði Hildur sem segir íslenska liðið geta tekið margt jákvætt með sér úr leiknum.
„Þetta gefur okkur sjálfstraust. Ef við getum spilað á móti Danmörku svona þá getum við alveg eins spilað á móti Þýskalandi svona og haldið í boltann. Það gefur okkur trú á okkur sjálfar og þor.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Hildi í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir