Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   mið 28. ágúst 2024 14:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Félagaskipti Gumma Tóta höfðu áhrif á landsliðsvalið
Icelandair
Mynd: FC Noah
Logi fékk kallið.
Logi fékk kallið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson verður ekki í landsliðshópnum sem kemur saman eftir helgi. Liðið spilar tvo leiki í Sambandsdeildinni, heima gegn Svartfjallalandi og svo er leikur gegn Tyrkjum í Tyrklandi.

Guðmundur hafði verið í fimm síðustu landsliðshópum og byrjaði báða leikina í umspilinu í mars þegar spilað var um sæti á EM í sumar. Hann fær ekki kallið í þetta skiptið. Gummi, eins og hann er alltaf kallaður, færði sig um set í sumar og samdi við FC Noah í Armeníu í sumar eftir að hafa spilað í grísku úrvalsdeildinni.

Kolbeinn Birgir Finnsson hjá Utrecht og Logi Tómasson hjá Strömsgodset eru í hópnum. Landsliðsþjálfarinn, Age Hareide, var spurður hvort að félagaskipti Gumma til Armeníu hefðu eitthvað að segja þegar hann ákvað hvaða vinstri bakverðir yrðu í hópnum.

„Ég tek það með í reikninginn, hann er að taka skref niður á við. Á hans aldri, að taka skref niður á við í gæðum, er ekki gott," segir Hareide. Gummi er 32 ára og á að baki fimmtán A-landsleiki.

„Við þurfum að skoða Loga og Kolbein sem eru yngri, ég hef fylgst náið með Loga í Noregi og hann hefur spilað mjög vel. Hann er frábær sóknarmaður, getur verið auka sóknarmaður þegar við sækjum. Hann verður að laga varnarleikinn sinn. Hann er í öðru hlutverki í Noregi þar sem hann spilar sem vængbakvörður en hjá okkur er hann aftar, sem bakvörður. Kolbeinn er svo mættur til Utrecht í Hollandi sem er gott skref fyrir hans feril," segir Hareide.

Gummi var leikmaður OFI Crete sem barðist í neðri hluta grísku deildarinnar. Noah er eitt af toppliðunum í Armeníu og verður líklega í Sambandsdeildinni í vetur.

Kolbeinn (1999) hefur verið í hópnum að undanförnu og byrjaði báða vináttuleikina í sumar. Logi (2000) er á leið í sitt fyrsta keppnisverkefni með A-lansliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner