Arnór Sigurðsson átti frábært ár í fyrra og vonandi verður þetta ár jafnvel betra hjá þessum bráðefnilega leikmanni.
Arnór skipti yfir frá Norrköping í Svíþjóð til CSKA Moskvu í Rússlandi þar sem hann spilaði í Meistaradeildinni og skoraði gegn stórliðum eins og Roma og Real Madrid.
Hollenski fótboltamiðillinn Voetbal International (VI) tók saman lista yfir 20 efnilegustu unglinga heims. Á listanum eru leikmenn sem eru 19 ára og yngri.
Arnór gerir sér lítið fyrir og er í 18. sæti listans, rétt á eftir Reiss Nelson, leikmanni Arsenal sem hefur verið að slá í gegn á láni hjá Hoffenheim í Þýskalandi.
„Arnór Sigurðsson var stórkostlegur í Meistaradeildinni í desember. Hann átti stoðsendingu og skoraði mark, og átti stóran þátt í 3-0 útisigri á Real Madrid. Sigurðsson, sem spilaði sinn fyrsta A-landsleik í nóvember, spilaði á síðasta ári með Norrköping. CSKA greiddi fyrir hann 4 milljónir evra," segir um Arnór.
Í tíunda sæti listans er Vinicius Junior, vonarstjarna Real Madrid. Svo má finna Justin Kluivert, Ryan Sessegnon og Matteo Guendouzi þar fyrir ofan.
Í þriðja sæti er Kai Havertz, leikmaður Bayer Leverkusen, og í öðru sæti er Englendingurinn Jadon Sancho, sem spilar með Borussia Dortmund.
Í efsta sæti listans er varnarmaðurinn Matthijs De Ligt, sem spilar fyrir Ajax í Hollandi. De Ligt hefur verið sterklega orðaður við Barcelona og fleiri stórlið. Hann er kominn með fyrirliðabandið hjá Ajax þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall.
Smelltu hér til að sjá listann í heild sinni.
Sjá einnig:
Arnór Sig: Mikilvægt að verða ekki hrokagikkur
Athugasemdir