
„Tímabilið leggst þrusuvel í okkur sem stöndum að liðinu. Þórsarar voru eðlilega ekki ánægðir með síðasta tímabil hjá okkur og við sem lið þurfum að berja trú í stuðningsmenn okkar strax að liðið verði betra á þessu tímabili," segir Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, í samtali við Fótbolta.net.
Þórsurum er spáð fimmta sæti af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
Þórsurum er spáð fimmta sæti af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
„Stuðningsmenn Þórs eru eins og allir vita einstakir og klárlega eitt mikilvægasta púslið í því að liðið nái árangri. Takturinn og stemningin í hópnum finnst okkur vera þannig að við munum smita því í stuðningsmenn og þeir flykkist á bakvið okkur í sumar."
Mikil vonbrigði en á sama tíma lærdómur
Síðasta tímabil voru vonbrigði fyrir Þórsara en þeir enduðu í tíunda sæti deildarinnar.
„Ég horfi að sjálfsögðu á það sem mikil vonbrigði en líka mikinn lærdóm. Væntingar okkar og allra Þórsara voru miklar fyrir mót og fallið því gríðarlega hátt hjá öllum sem stóðu að liðinu," segir Siggi.
„Mér finnst yfirvegunin meiri komandi inn í þetta tímabil sem ég held að við getum nýtt okkur. Eins daprir og við vorum á löngum tímum síðasta sumar og að vissu leuti langt frá því að ná inn í úrslitakeppnina að þá leið manni samt eins og við værum ekki svo langt frá því, eins asnalega og það hljómar, en það veitir okkur hins vegar smá trú á því að þrátt fyrir allt hafi góðir hlutir verið í gangi."
Siggi telur að hópurinn sé öflugri líkamlega en hann var í fyrra.
„Æfingalega hefur gengið vel. Mér finnst hópurinn að mörgu leiti öflugri líkamlega. Við stækkuðum teymið í kringum liðið og fórum í samstarf við Inga Torfa og LifeTrack. Leikmannahópurinn hefur því verið að taka mataræði og hvíld föstum tökum og finnst okkur það vera að sjást mjög vel á hópnum og greinilegur ávinningur á því samstarfi. Samheldnin og stemningin í hópnum er líka að verða öflugri og klárt auka vopn í vopnabúrið okkar."
„Leikjalega hefur verið mikill uppgangur síðustu vikur. Meðvitað tókum við þá ákvörðun að nálgast leikina örlítið öðruvísi á þessu undirbúningstímabili og það finnst okkur hafa gengið vel. Leikmannahópurinn er að taka á sig rétta mynd töluvert seinna heldur en í fyrra sem við horfum á með jákvæðum augum því að okkur finnst liðið vera að mæta í uppgangi inn í mótið frekar en í hæstum hæðum líkt og í fyrra," segir Siggi.
Gert ofboðslega vel á markaðnum
Það hafa verið nokkrar breytingar á hópnum. Öflugir póstar á borð við Aron Einar Gunnarsson og Birki Heimisson hafa horfið á braut en það hafa sterkir leikmenn komið inn í staðinn.
„Já, við erum mjög sáttir með það sem við höfum fengið inn í hópinn. Það voru margir sem yfirgáfu okkur eftir síðasta tímabil af mismunandi ástæðum og nánast enginn af þeim sem við vildum missa. En við höfum gert að mínu mati ofboðslega vel á markaðnum," segir Siggi.
„Það er gömul saga og ný að það getur verið djöfullegt að fá íslenska leikmenn til að flytja norður, sem er mjög sorgleg staða, og því höfum við þurft að leita útfyrir landssteinana að styrkingum. Erlendu leikmennirnir hafa komið mjög öflugir inn í klúbbinn og svo auðvitað fengum við Orra aftur heim, sem við erum hæstánægðir með. Lykilstöður sem við þurftum að fylla í finnst okkur við hafa náð að fylla og því getum við ekki verið annað en sáttir með leikmannahópinn eins og hann lítur út í dag."
Eitt lið með leikmannahóp í sérflokki
Þór spilaði við ÍR í Mjólkurbikarnum á dögunum og vann þar 3-1 sigur. Þetta eru tvö lið sem búist er við að verði á svipuðum stað í sumar.
„Það er alltaf hægt að taka eitthvað úr öllum leikjum. Held að okkur hafi öllum fundist frammistaðan endurspegla örlítið stöðuna á hópnum, leystum það með yfirvegun að lenda undir og vorum kraftmiklir á báðum endum vallarins. Við skoðum þennan leik eins og alla leiki og vinnum í því að bæta liðið enn meira," segir Siggi en hvernig sér hann Lengjudeildina spilast í sumar?
„Örugglega bara eins og flestir. Fljótt á litið virðist vera eitt lið sem er með leikmannahóp í algjörum sérflokki. Þar á eftir 2-3 lið sem telja sig geta keppt um 1. sætið og svo nánast öll hin liðin sem hafa augastað á úrslitakeppninni."
En hvað er markmiðið fyrir sumarið?
„Aðalmarkmiðið er að gera stuðningsmenn Þórs spennta að mæta á leiki hjá okkur. Ef það næst þá fylgir því einhver skemmtileg lokaniðurstaða á mótinu," sagði Siggi Höskulds að lokum.
Athugasemdir