þri 29.apr 2025 15:00 Mynd: Grindavík |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeild kvenna: 7. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Grindavík/Njarðvík er spáð sjöunda sætinu.
Ása Björg hefur spilað lykilhlutverk fyrir Grindavík síðustu árin.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík/Njarðvík mun spila heimaleiki sína á Rafholtsvelli.
Mynd/Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Grindavík hafnaði í áttunda sæti Lengjudeildarinnar í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7. Grindavík/Njarðvík, 66 stig
8. KR, 62 stig
9. Haukar, 61 stig
10. Afturelding, 26 stig
7. Grindavík/Njarðvík
Grindavík og Njarðvík mæta með sameiginlegt lið til leiks í kvennaflokki þetta sumarið og það var sögulegur sigur í gær þegar þær unnu Keflavík óvænt í Mjólkurbikarnum. Það er líklega óhætt að tala um heillaskref þegar meistaraflokkar félagana sameinuðust núna í vetur. Eins og þekkt er hefur lið Grindavíkur verið í basli frá því að rýma þurfti bæinn árið 2023 og þá hafa Njarðvíkingar verið að leggja drög að meistaraflokki kvenna hjá félaginu síðustu ár. Sameiginlegt lið félagana mun taka þátt í Lengjudeild kvenna í sumar og er spáð ágætis gengi af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
Þjálfarinn: Gylfi Tryggvason var í vetur ráðinn fyrsti þjálfari í sögu Grindavík/Njarðvík. Hann gerði samning við félagið sem gildir til ársins 2027. Gylfi starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá HK og sá einnig um yngriflokka þjálfun þar. Hann býr yfir góðri reynslu úr íslenska boltanum eftir að hafa þjálfað hjá Fylki, Stjörnunni og Árbæ og þá er hann mikill áhugamaður um neðri deildirnar í íslenska boltanum þar sem hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa haldið uppi hlaðvarpsþáttunum Ástríðan sem fjölluðu um neðri deildir karla. Auk þess starfaði hann sem dómari og var kominn framarlega í flokk þar á sínum tíma.
Stóra spurningin: Hvernig mun samstarfið ganga?
Þetta var flott skref þegar ákvörðunin var tekin. Njarðvík var að fara af stað með meistaraflokk og fær félagið þarna tækifæri til að sameinast Grindavík, sem hefur verið í erfiðleikum vegna jarðhræringa í Grindavíkur. Liðið mun leika í Lengjudeildinni og það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig samstarfið gengur. Það virðist hingað til hafa gengið vel.
Lykilmenn: Brookelynn Paige Entz og Ása Björg Einarsdóttir
Brookelynn hefur sýnt það og sannað á síðustu árum að hún er einn besti leikmaður Lengjudeildarinnar, ef bara ekki sá besti. Hún kom fyrst hingað sumarið 2022 og spilaði með Val, en síðustu tvö sumur hefur hún spilað algjört lykihlutverk fyrir HK. Í fyrra gerði hún 13 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni. Það var mikill happafengur fyrir Grindavík/Njarðvík að fá hana í sínar raðir. Þá hefur Ása Björg verið afar mikilvægur leikmaður fyrir Grindavík síðustu árin og hún verður það áfram í þessu liði. Hún skoraði tvö mörk í fræknum sigri gegn Keflavík í gær.
Gaman að fylgjast með: Tinna Hrönn Einarsdóttir
Leikmaður sem var einnig á skotskónum gegn Keflavík í gær. Hún er fædd árið 2004 en er þrátt fyrir það komin með mikla reynslu í meistaraflokki. Hún er uppalin í Grindavík og hefur leikið þar allan sinn feril. Mjög teknískur sóknarmaður með frábæra löpp.
Komnar:
Anna Rakel Snorradóttir frá ÍH
Brookelynn Paige Entz frá HK
Danai Kaldaridou frá Grikklandi
Emma Nicole Phillips frá Bandaríkjunum
Eydís María Waagfjörð frá Stjörnunni
Ingibjörg Erla Sigurðardóttir frá Stjörnunni
Krista Sól Nielsen frá Tindastóli
María Martínez López frá Mexíkó
Farnar:
Arianna Lynn Veland til Bandaríkjanna
Aubrey Goodwill til Portúgal
Emma Kate Young til Filippseyja
Helga Rut Einarsdóttir í Breiðablik
Ísabel Jasmín Almarsdóttir í ÍA
Jada Lenise Colbert til Ástralíu
Katelyn Kellogg til Brasilíu
Una Rós Unnarsdóttir í Fram
Gríðarlega stoltur að vera þjálfari þessa liðs
Gylfi Tryggvason, þjálfari liðsins, er sama um það hvernig spáð er í deildina.
„Okkur gæti ekki verið meira sama um þessa spá. Ég held satt að segja að engin spá hefði komið mér á óvart. Ég velti mér ekkert upp úr því hvað fyrirliði ÍBV eða þjálfari Hauka halda að muni gerast hjá okkur í sumar."
„Eftir því sem ég hugsa meira út í það verður skýrara fyrir mér að ég get hreinlega ekkert lýst því hvernig það hefur verið fyrir mig að koma í þetta verkefni. En ég skal reyna að draga saman helstu atriðin. Ég er gríðarlega stoltur af því að vera þjálfari þessa liðs. Ég hlakka til að mæta á hverja einustu æfingu og leik. Stemningin í hópnum er geggjuð. Kúltúr liðsins er frábær bæði innan vallar sem utan. Hugarfar stelpnanna er til fyrirmyndar. Það eru algjör forréttindi að fá að þjálfa leikmenn sem eru tilbúnir að leggja á sig alla þá vinnu sem stelpurnar hafa lagt á sig í vetur og ég hef verið í algjörri núvitund í vetur, fullkomlega meðvitaður um hversu þakklátur ég er fyrir þennan hóp."
Hann segir að það hafi verið stígandi hjá liðinu á undirbúningstímabilinu.
„Ef ég ætti að lýsa undirbúningstímabilinu okkar í einu orði þá væri það „stígandi“. Við sjáum það á öllum gögnum hvað varðar tölfræði eins sendingar, possession, skot o.s.frv. sem og GPS tölur að við erum með hverri vikunni að nálgast það lið sem við viljum verða. En það sem meira er, við sjáum það í leikjum sem við höfum spilað. Eins og ég segi er ég mjög ánægður með hugarfar leikmanna og ég held að það sé helsta forsenda þeirra framfara sem hópurinn hefur tekið í vetur, bæði sem einstaklingar og lið. Þær hafa verið opnar fyrir þeim hugmyndum sem við úr þjálfarateyminu höfum lagt á borðið. Ég er mjög þakklátur fyrir það öfluga þjálfarateymi sem ég fæ að vinna með á hverjum degi."
Gylfi er sáttur með hópinn sem hann er með í höndunum fyrir komandi sumar.
„Já, ég er sáttur með hópinn. Leikmenn vita sín hlutverk og hver einasti leikmaður í þessum hópi leggur sitt af mörkum til hjálpar liðsins. Staðan þegar þetta verkefni fór af stað var þannig að við þurftum að bæta við töluvert af leikmönnum í hópinn. Ég get ekki verið annað en sáttur með það sem félagið hefur gert á leikmannamarkaðnum. Við höfum náð að endurvekja nokkra leikmenn sem voru hættir, við höfum fengið leikmenn til okkar að utan og við höfum fengið leikmenn til okkar úr bænum. Allt þetta lýsir metnaði þeirra leikmanna sem við höfum fengið og ekki síður þess metnaðar sem félagið hefur til að gera vel. Við leggjum mikla áherslu á að okkar leikmenn taki framförum. Það skiptir okkur mun meira máli en einhver úrslit leikja. Úrslitin eru bara afleiðing frammistöðu og til að frammistaðan sé góð verða leikmenn á vellinum að skilja hvern djöfulinn þeir eru að gera inn á vellinum og kunna að framkvæma ákveðna hluti sem hjálpa þeim að koma boltanum í net andstæðingsins og forða honum frá eigin neti. Það eru helstu vísindin sem við fylgjum."
„Þessi deild í fyrra var náttúrulega algjör þvæla og sú jafnasta í sögunni. Ég held að pakkinn verði enn þéttari í ár. Ég held að æ fleiri félög séu farin að setja aukinn kraft í kvennaliðið sitt sem leiðir af sér fleiri góð lið sem leiðir af sér sterkari Lengjudeild."
„Ég væri að ljúga ef ég segði að við værum að hugsa um einhverja niðurstöðu í þessari deild. Við höfum náð að halda algjörum fókus á okkur sjálf og munum gera það í sumar. Við höfum frekar spurt okkur að því hvernig lið við viljum verða, innan sem utan vallar. Við fengum ákveðin svör við þeirri spurningu og erum að vinna í því að komast nær því að verða þannig lið. Að ofhugsa einhverja deild í ár er ekki hluti af þeirri vegferð. Við ætlum út á völl í hvern einasta leik til að vera besta útgáfan af sjálfum okkur. Ef það skilar okkur sigri munum við fagna. Ef það skilar okkur tapi munum við læra. Svo kemur næsti leikur og við gerum þetta allt saman upp á nýtt."
Eitthvað að lokum?
„Ég vil þakka okkar stuðningsfólki fyrir veturinn. Það hefur verið umtalað innan liðsins hversu vel hefur verið mætt á leikina okkar í vetur. Mætingin hefur verið betri en á mörgum af þeim deildarleikjum sem ég sá í fyrra. Við finnum fyrir stuðningi Grindvíkinga, Njarðvíkinga og reyndar margra annarra. Við hvetjum ykkur til að mæta á völlinn í sumar og halda áfram að styðja okkur. Við lofum góðri skemmtun á okkar leikjum í sumar."
Fyrstu þrír leikir Grindavík/Njarðvík:
3. maí, Grindavík/Njarðvík - ÍBV (Rafholtsvöllurinn)
8. maí, Fylkir - Grindavík/Njarðvík (tekk VÖLLURINN)
17. maí, Grindavík/Njarðvík - ÍA (Rafholtsvöllurinn)
Athugasemdir