Arsenal sýnir Nkunku áhuga - Chelsea vill Gittens - Everton vill endurheimta Richarlison
   þri 29. apríl 2025 20:05
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Meistararnir rúlluðu yfir nýliðana - Þróttur lagði Víking
Kvenaboltinn
Blikar hafa skorað fimmtán mörk í fyrstu þremur leikjum tímabilsins
Blikar hafa skorað fimmtán mörk í fyrstu þremur leikjum tímabilsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur vann á sjálfsmarki
Þróttur vann á sjálfsmarki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu annan leik sinn í Bestu deildinni á tímabilinu er liðið tók á móti Fram á Kópavogsvelli í kvöld, en lokatölur urðu 7-1, Blikum í vil. Sjálfsmark tryggði Þrótti 1-0 sigur á Víkingi.

Leikurinn fór hægt af stað og var lítið um opin færi fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo en eftir það tóku Blikar öll völd og skoruðu tvö mörk á sjö mínútum.

Heiðdís Lillýardóttir skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu á 23. mínútu. Samantha Smith átti aukaspyrnu sem Elaina varði út í teiginn og fyrir Heiðdísi sem setti boltann í markið.

Blikar tvöfölduðu forystuna nokkrum mínútum síðar er Andrea Rut Bjarnadóttir fékk boltann í vítateignum og hamraði honum í fjærhornið.

Birta Georgsdóttir sá til þess að koma Blikum í þægilega forystu inn í hálfleikinn. Andrea Rut tók aukaspyrnuna á kollinn á Helgu Rut Einarsdóttur sem kom honum áfram á Birtu og eftirleikurinn auðveldur.

Meistararnir héldu áfram í sama í gír í þeim síðari. Samantha Smit kom sér á blað í leiknum á 47. mínútu og varð útlitið enn svartara fyrir Framara er Sylvía Birgisdóttir fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum fyrir brot.

Manni færri tókst Fram að minnka muninn er Katrín Erla Clausen setti boltann í netið eftir hornspyrnu en Blikar settu aftur í fimmta gír og skoraði þrjú mörk á síðasta hálftímanum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eftir hornspyrnu á 63. mínútu áður en varamaðurinn Líf Joostdóttir van Bemmel gulltryggði sigurinn með tveimur mörkum á lokamínútunum.

Agla María Albertsdóttir átti stoðsendinguna að báðum mörkunum eftir að hafa komið upp vinstri vænginn og sett hann fyrir á Líf sem kláraði vel í bæði skiptin.

Flottur sigur hjá Blikum sem eru komnar á toppinn með 7 stig og betri markatölu en Valur en Fram án stiga á botninum.

Annar sigur Þróttara

Þróttur vann Víking, 1-0, í hamingjunni í Víkinni.

Víkingsliðið var mun meira með boltann og skapaði sér betri stöður í fyrri hálfleiknum en nýtingin er það sem skiptir máli og tókst Þrótturum að skora eitt mark gegn gangi leiksins.

Gestirnir fengu aukaspyrnu sem var komið inn á Katie Cousins sem náði að setja boltann í átt að marki. Boltinn fór í stöng og hrökk síðan af Sigurborgu K. Sveinbjörnsdóttur og í netið. Sjálfsmark.

Víkingskonur voru sterkari í þeim síðari og sköpuðu sér mörg álitleg færi en það var sama sagan og í þeim fyrri. Nýtingin var ekki til staðar og fögnuðu Þróttarar öðrum sigri sínum á tímabilinu.

Þróttur er með 7 stig í 3. sæti deildarinnar en Víkingur áfram í 6. sæti með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Breiðablik 7 - 1 Fram
1-0 Heiðdís Lillýardóttir ('23 )
2-0 Andrea Rut Bjarnadóttir ('30 )
3-0 Birta Georgsdóttir ('43 )
4-0 Samantha Rose Smith ('47 )
4-1 Katrín Erla Clausen ('62 )
5-1 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('63 )
6-1 Líf Joostdóttir van Bemmel ('87 )
7-1 Líf Joostdóttir van Bemmel ('92 )
Rautt spjald: Sylvía Birgisdóttir, Fram ('49) Lestu um leikinn

Víkingur R. 0 - 1 Þróttur R.
0-1 Sjálfsmark, Sigurborg K. Sveinbjörnsdóttir ('21 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner