mið 03.apr 2024 18:30 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Þetta er svo sannarlega áhugaverð saga
Luke Rae er 23 ára gamall Englendingur sem kom til Íslands fyrir tímabilið 2020 og lék þá með Tindastóli í 3. deild. Hann hélt til Vestra og lék í Lengjudeildinni tímabilið 2021. Næsta stopp var á Seltjarnarnesi þar sem hann raðaði stoðsendingum á Kjartan Kára Halldórsson og fyrir síðasta tímabil var hann fenginn til KR. Hann er núna á leið inn í sitt annað tímabil með Vesturbæjarstórveldinu en saga hans í fótboltanum er vægast sagt áhugaverð.
'Að vera á Sauðárkróki var stórkostleg upplifun fyrir mig. Ég er sjálfur frá smábæ á Englandi og mér fannst auðvelt að aðlagast og venjast menningunni'
Mynd/Óli Arnar Brynjarsson
'Ég held að þetta sé breyting sem félagið hafi þurft á að halda. Sögulega séð erum við besta félagið á Íslandi en því miður þá hefur KR ekki náð að sýna það á síðustu árum'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég vil bara komast eins langt og ég get. Að gera hluti sem tíu ára gamli ég dreymdi um á hverri nóttu'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilaði í utandeildinni
Luke var aðeins á 20. aldursári þegar hann ákvað að taka stökkið yfir til Íslands. Þá fékk hann tilboð um að koma og spila fótbolta á Sauðárkróki, um 3000 manna bæjarfélagi á Íslandi.
„Lífið áður en ég kom til Íslands var bara nokkuð fínt. Ég spilaði fótbolta í skólaliðinu mínu og það var fínt getustig en svo fór ég að spila fullorðinsfótbolta á Englandi þegar ég var 17 ára. Ég var bara að spila neðarlega í utandeild en þetta var allt öðruvísi en að spila einhvern unglingabolta. Ég var þakklátur að fá tækifæri að spila ungur í fullorðinsbolta," segir Luke.
„Það gekk vel og ég fékk fljótlega félagaskipti í félag sem var nokkrum deildum fyrir ofan. Það var svipað og hér á Íslandi þar sem það voru félög í deildum fyrir ofan sem sýndu mér áhuga en ég tók það skref sem mér þótti vera best fyrir ferilinn minn."
Fékk neitanir út af hæðinni
Luke er ekki sá hæsti í loftinu og fékk hann margar neitanir frá félögum vegna þess þegar hann var yngri.
„Það skipti ekki máli hvernig ég var standa mig"
„Það hafði mikil áhrif á mig þegar ég var yngri, að vera hafnað af félögum út af einhverju sem ég hef enga stjórn á. Það skipti ekki máli hvernig ég var standa mig, það var aldrei nóg, þar sem ég var miklu lægri en allir aðrir."
„Ég var samt heppinn að fá tækifæri til að spila mikinn fótbolta þegar ég var að alast upp. Ég spilaði fótbolta á hverjum einasta degi og það hjálpaði mér að komast yfir vonbrigðin."
Auðveld ákvörðun
Luke segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að stökkva á tækifærið og koma til Íslands. Jamie McDonough, þáverandi þjálfari Tindastóls, sá eitthvað í honum og fékk hann til landsins.
„Þetta var auðveld ákvörðun fyrir mig. Ég var fljótur að taka ákvörðunina þar sem ég vildi prófa að upplifa fótbolta utan Englands. Ég hef alltaf skilið það að ég þarf að fórna hlutum til að ná árangri í íþróttum. Ég var búinn að undirbúa mig andlega fyrir allt sem gæti komið ferlinum mínum áfram."
Hvernig brugðust fjölskylda hans og vinir við því að hann væri að fara til Íslands?
„Þau voru öll glöð fyrir mína hönd. Þau vita hver draumur minn og hver hann hefur alltaf verið. Að sjá mig fara til annars lands að elta drauminn, þau hefðu ekki getað verið stoltari."
Stórkostleg upplifun á Króknum
Luke kom hingað fyrst og spilaði í 3. deild á Sauðárkróki. Hvernig var sú reynsla fyrir hann?
„Ég vann þar í átta tíma á dag"
„Að vera á Sauðárkróki var stórkostleg upplifun fyrir mig. Ég er sjálfur frá smábæ á Englandi og mér fannst auðvelt að aðlagast og venjast menningunni. Fólkið á Króknum var mjög vinalegt við mig og það gerði mér auðvelt fyrir. Ég verð að minnast á Ísak Sigurjónsson þar sem hann tók mig undir sinn verndarvæng. Ég er honum mjög þakklátur."
„Lífið á Króknum var aðeins öðruvísi en það sem ég var vanur. Ég vann þar í átta tíma á dag að mála fiskvinnslu og svo fór maður á æfingu beint þar á eftir," segir Luke. Hann hefur þurft að vinna sig á toppinn í íslenskum fótbolta.
Tók skrefið upp
Luke átti stórkostlegt sumar með Tindastóli þar sem hann skoraði 18 mörk í 23 leikjum í deild og bikar. Hann vakti athygli félaga í deildum fyrir ofan og endaði á því að semja við Vestra sem var þá í næst efstu deild.
„Ég leit aldrei á það sem stórt stökk. Ekki misskilja mig, það er stórt stökk að fara úr fjórðu efstu deild og í þá næst efstu en ég hugsaði ekki þannig. Ég hugsaði bara að þetta væri næsta skref. Lífið varð öðruvísi og það hjálpaði mér að þurfa ekki að vinna átta tíma á dag. Ég gat þá æft meira og bætt mig sem leikmann."
Það var svo tímabilið þar á eftir, sumarið 2022, sem Luke sprakk gjörsamlega út. Hann skipti yfir í Gróttu, sem var einnig í Lengjudeildinni, þar sem hann var algjörlega frábær.
„Frá fyrsta samtali mínu við Chris (Brazell, þjálfara Gróttu) þá vissi ég að ég gæti lært og þróast mikið undir hans þjálfun. Ég æfði gríðarlega mikið með honum og þjálfarateyminu, og þeir hjálpuðu mér líka mikið utan vallar," segir Luke.
„Liðið lék vel frá byrjun og tengingin mín við Kjartan Kára hjálpaði mér að blómstra. Mörkin og stoðsendingarnar á milli okkar tveggja, það var ótrúlegt að taka þátt í því. Við vorum mikið að ýta á hvorn annan að gera meira á æfingum og í leikjum. Það hjálpaði mér mikið að hafa hann þarna."
Sagði við mig að ég yrði þar bara í eitt tímabil
Luke ber Chris Brazell, þjálfara Gróttu, góða sögu og segir hann hafa hjálpað sér mikið. Það var mikill áhugi á honum eftir tímabilið sem hann átti með Gróttu.
„Þetta er svo sannarlega áhugaverð saga"
„Ég fann fyrir áhuga og leikmaður sem vill spila á sem hæstu stigi er alltaf forvitinn um tilboð sem koma inn. Ég heyrði af áhuga áður en tímabilið byrjaði, á miðju tímabili og þegar því lauk svo. Chris sagði við mig að ég gæti farið langt og ef ég myndi gera það sem hann væri að búast við af mér, þá yrði ég bara þarna í eitt tímabil í mesta lagi."
Hann samdi svo við KR, sigursælasta fótboltafélag landsins.
„Þetta er svo sannarlega áhugaverð saga, að fara úr fjórðu efstu deild og í Bestu deildina á þremur árum. Það var alltaf planið að fara í efstu deild á nokkrum árum og að það raungerist er þýðingarmikið fyrir mig."
„Ég er með mikinn fókus á að ná árangri og vinnusemi mín innan sem utan vallar er stór ástæða þess að ég er kominn hingað. Ég hef alltaf haft trú á sjálfum mér en hæfileikar munu aldrei hafa betur gegn vinnusemi."
Mikill lærdómur
Enski framherjinn átti góð augnablik á sínu fyrsta tímabili með KR en hlutverkið var kannski ekki það sem hann vildi. Hann sat mikið á bekknum.
„Þetta var lærdómur fyrir mig," segir Luke. „Ég var svekktur með þær fáu mínútur sem ég fékk. Sem leikmaður þá viltu alltaf spla og hjálpa liðinu að standa sig vel. Því miður þá gat ég ekki gert það nægilega mikið."
Breytingin sem félagið þurfti á að halda
Það eru breytingar hjá KR fyrir komandi tímabil þar sem Gregg Ryder, landi Luke, er tekinn við liðinu.
„Mörk, stoðsendingum og auðvitað hraða"
„Ég held að þetta sé breyting sem félagið hafi þurft á að halda. Sögulega séð erum við besta félagið á Íslandi en því miður þá hefur KR ekki náð að sýna það á síðustu árum. Frá því að Gregg kom inn þá hefur hann breytt miklu til hins betra. Við erum atvinnumannalið, æfum á morgnana og stundum seinna á daginn líka. Það hjálpar mér að hafa enskan þjálfara, að sjálfsögðu. Hvernig hann vinnur, þú sérð þetta hjá stórum félögum á Englandi."
„Þjálfarateymið sem Gregg er búinn að setja saman er að gera virkilega flotta hluti og ég get með sanni sagt að KR er núna á réttri leið með að verða aftur besta félagið á Íslandi. Þetta er á leið í rétta átt," segir Luke.
Hverju má fólk búast við af honum í sumar?
„Mörk, stoðsendingum og auðvitað hraða. Ég hef aldrei verið tilbúnari í tímabil en akkúrat núna. Þetta verður spennandi ár fyrir mig, en líka fyrir liðið, félagið og stuðningsmennina."
Besta augnablikið í fótboltanum
Besta augnablik Luke á síðasta tímabili var þegar hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma gegn Breiðabliki á síðasta tímabili. Sá leikur var í næst síðustu umferð en KR lenti 3-1 undir en endaði á að vinna 4-3.
Eftir það mark komu leikmenn úr yngri flokkum KR og fögnuðu með Luke.
„Ég hef alltaf vanið mig á það að mynda gott samband við stuðningsmennina og sérstaklega yngri kynslóðina. Ég get ekki útskýrt tilfinninguna sem kom upp hjá mér með þessu sérstaka marki. Þetta var einstakt augnablik, og myndi jafnvel segja mitt stoltasta augnablik í fótboltanum. Ég vil vera innblástur fyrir krakka sem vilja elta drauminn. Ég man þegar ég var yngri hvað það hefði skipt mig miklu máli að sjá fyrirmyndina koma til mín og tala við mig. Þannig að ég reyni að gera það."
Lífið á Íslandi er gott
Luke segist eiga gott líf á Íslandi en hann er núna búinn að vera hérna í fimm ár.
„Ég vil afreka stóra hluti í fótboltanum"
„Lífið á Íslandi er mjög gott. Ég á íslenska kærustu, Svanhildi, og við höfum verið saman í næstum þrjú ár núna. Ég á kött og er í fullu starfi sem fótboltamaður. Ég get svo sannarlega ekki kvartað," segir Luke ánægður. „Ég er aðeins að þjálfa en er annars bara að einbeita mér alfarið að spila fótbolta."
„Ég drekk mikið kaffi og ég er mikið á kaffihúsum að slaka á. Ég er að verða betri golfari. Ég er ekki góður en ég er að verða betri. Það er það sama með píluna en ég er ekki mikið betri píluspilari en golfari," segir Englendingurinn.
„Ég sé mig fara frá Íslandi á einhverjum tímapunkti og spila á hærra getustigi. En eftir ferilinn þá væri ég til í að koma aftur til Íslands og búa hérna. Ég get sagt það. Ég vil afreka stóra hluti í fótboltanum. Ég er heltekinn af þessari íþrótt. Draumurinn var alltaf að spila í bestu liðum heims og í landsliði. Ég vil bara komast eins langt og ég get. Að gera hluti sem tíu ára gamall ég dreymdi um á hverri nóttu," sagði Luke að lokum en það verður afar spennandi að sjá hann í sumar.
Athugasemdir