Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   mið 10. júlí 2024 22:27
Brynjar Ingi Erluson
Ástríðufullur Kane: Getur gert gæfumuninn
Harry Kane fagnar eins og óður maður eftir sigurinn á Hollandi
Harry Kane fagnar eins og óður maður eftir sigurinn á Hollandi
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Harry Kane, fyrirliði Englendinga, var ástríðufullur í viðtali við ITV eftir magnaðan 2-1 sigur liðsins á Hollandi í undanúrslitum Evrópumótsins í kvöld.

Englendingar munu spila til úrslita á Evrópumótinu í annað sinn í röð.

Ollie Watkins gerði sigurmarkið inn af bekknum undir lok leiksins með frábæru skoti og kom Englandi í úrslitaleikinn gegn Spánverjum.

„Við erum komnir í sögubækurnar. Ótrúlegt afrek. Ég er svo stoltur af öllum, hverjum einasta leikmanni og starfsmanni. Að gera það sem við höfum gert og það á útivelli er ótrúlega sérstakt. Það er samt þessi tilfinning að við eigum einn leik eftir og við þurfum að klára það á sunnudag.“

Watkins hafði fengið fáar mínútur á EM en þegar tíu mínútur voru eftir kom hann inn fyrir Kane og nýtti tækifærið.

„Við töluðum um að vera klárir. Við erum stórt lið þegar það kemur að því að vera klárir á ögurstundu. Þú gætir fengið fimm eða eina mínútu, en þú getur gert gæfumuninn. Þú getur unnið mótið fyrir okkur. Hann hefur beðið, verið þolinmóður og það sem hann gerði var algerlega stórkostlegt. Hann verðskuldar þetta fyllilega.“

„Mér fannst við með góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleiknum, en í seinni voru þreyttar lappir á vellinum. Þegar á heildina er litið fannst mér við verðskulda þetta.“


Umdeilda atvik leiksins var vítaspyrnan sem Englendingar fengu á 18. mínútu. Denzel Dumfries fór með takkana í Kane sem var ný búinn að hleypa af skoti. Ekkert var dæmt á vellinum en Felix Zwayer, dómari leiksins, var beðinn um að skoða atvikið í VAR þó það séu ekki allir sammála um að þetta hafi verið skýr og augljós mistök.

„Löppin á mér hangir og hann fór klárlega í mig. Stundum fær maður þessi víti og stundum ekki. Ég var ánægður að stíga upp og sjá boltann enda í netinu. Það var notaleg tilfinning.“

Næst er það Spánn á sunnudag. Spánverjar hafa verið langbesta lið mótsins til þessa en Kane er klár í þann slag.

„Annar ótrúlega erfiður leikur. Það er einn leikur í viðbót til þess að komast í sögubækurnar og erum spenntir fyrir því. Þetta hefur verið erfið vegferð en það er einn leikur eftir. 90 mínútur, 120 mínútur og vítakeppni. Við gerum allt til þess að komast þangað og get ég hreinlega ekki beðið eftir því,“ sagði Kane.
Athugasemdir
banner