Það fóru tveir skemmtilegir slagir fram í fallbaráttunni í Bestu deild kvenna í dag, þar sem Keflavík féll eftir ótrúlegt átta marka jafntefli við Stjörnuna. Þar komust heimakonur í þriggja marka forystu í Reykjanesbæ.
Lestu um leikinn: Keflavík 4 - 4 Stjarnan
Keflavík hefur þraukað í efstu deild síðustu fjögur ár og alltaf tekist að forðast fall, þar til nú en félagið fellur með látum. Í dag var það Melanie Claire Rendeiro sem skoraði þrennu fyrir Keflvíkinga á fyrsta hálftíma leiksins en Garðbæingar svöruðu fyrir sig og tókst að jafna metin í síðari hálfleik.
Fanney Lísa Jóhannsdóttir, Hulda Hrund Arnarsdóttir og Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoruðu mörkin og var staðan orðin 3-3 á 66. mínútu, en mörkin hættu þó ekki að koma.
Marín Rún Guðmundsdóttir tók forystuna fyrir Keflavík á ný áður en Úlfa Dís gerði jöfnunarmark á lokakaflanum og urðu lokatölur því 4-4.
Keflavík er aðeins með 11 stig eftir 20 umferðir og er fallið fyrir lokaumferðina. Alveg eins og Fylkir, sem steinlá gegn Tindastóli á Sauðárkróki í dag.
Keflavík 4 - 4 Stjarnan
1-0 Melanie Claire Rendeiro ('10)
2-0 Melanie Claire Rendeiro ('21)
3-0 Melanie Claire Rendeiro ('32)
3-1 Fanney Lísa Jóhannesdóttir ('45)
3-2 Hulda Hrund Arnarsdóttir ('60)
3-3 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('66)
4-3 Marín Rún Guðmundsdóttir ('72)
4-4 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('82)
Sauðkrækingar tóku á móti Fylki og gerðu út um viðureignina í fyrri hálfleik, þar sem Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði fyrsta markið innan við mínútu frá upphafsflautinu.
Lestu um leikinn: Tindastóll 3 - 0 Fylkir
Elísa Bríet tvöfaldaði forystuna áður en Gabrielle Johnson setti þriðja og síðasta markið eftir tæplega hálftímaleik í 3-0 sigri. Á þessum tímapunkti var þetta farið að minna mikið á lokaleik Tindastóls í deildarkeppni í fyrra, þar sem Stólarnir gerðu sér lítið fyrir og rúlluðu yfir ÍBV 7-2 til að bjarga sér frá falli.
Í dag voru þó ekki skoruð fleiri mörk á Sauðárkróki og virtist sigur Tindastóls aldrei í hættu.
Tindastóll 3 - 0 Fylkir
1-0 Elísa Bríet Björnsdóttir ('1)
2-0 Elísa Bríet Björnsdóttir ('21)
3-0 Gabrielle Kristine Johnson ('27)
Athugasemdir