Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   mið 10. júlí 2024 22:59
Brynjar Ingi Erluson
Koeman brjálaður: Það er verið að eyðileggja fótboltann með svona ákvörðunum
Ronald Koeman
Ronald Koeman
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ronald Koeman, þjálfari hollenska landsliðsins, var allt annað en sáttur við dómgæsluna í 2-1 tapinu gegn Englandi í undanúrslitum Evrópumótsins í kvöld.

Þjálfarinn var verulega þreyttur á ákvörðunum Felix Zwayer og dómarateymi hans.

Koeman segir að leikurinn hafi ekki fengið að fljóta þar sem Zwayer flautaði allt of auðveldlega í flautu sína.

Stærsta atvikið í leiknum var þegar Denzel Dumfries var dæmdur brotlegur innan teigs fyrir að sparka í Harry Kane. Zwayer flautaði ekki brot þegar atvikið átti sér stað heldur var það VAR-herbergið sem sendi hann á hliðarlínuna til að skoða atvikið á skjánum.

„Svona VAR-ákvarðanir.. Hvað áttu að gera sem varnarmaður? Þetta er ekki vítaspyrna. Denzel vildi koma í veg fyrir boltann, Kane skýtur og skór þeirra snertast. Það er verið að eyðileggja fótboltann með svona ákvörðunum og út af VAR,“ sagði Koeman.

Hollensku miðlarnir sem ræddu við Koeman töluðu við hann um Zwayer en þeim fannst eins og hann hafði ekki hugmynd um hvað hann væri að gera á vellinum.

„Ég fékk þessa sömu tilfinningu. Mér fannst hann flauta á mjög kjánalega hluti. Þegar ensku leikmennirnir kasta sér svona niður í þeirra landi þá er ekki flautað, en í dag var það gert. Það voru mörg augnablik þar sem hann flautaði af ástæðulausu,“ sagði þjálfarinn enn fremur, en hann vildi ekki skella allri skuldinni á Zwayer.

„Þetta er ekki ástæðan fyrir tapinu. Þú tapar því þeir skora frábært sigurmark, en á köflum fannst mér dómarinn dæma brot á eitthvað sem var ekki brot,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner