Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fim 11. júlí 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Starf Deschamps ekki í hættu
Mynd: EPA
Starf franska landsliðsþjálfarans Didier Deschamps er ekki í hættu þó það hafi dottið úr leik í undanúrslitum Evrópumótsins í ár. Þetta staðfestir Phillippe Diallo, forseti franska fótboltasambandsins í viðtali við L'Equipe.

Frakkar voru slegnir úr leik af Spánverjum á Ólympíuleikvanginum í Berlín á þriðjudag.

Frammistaða Frakka var ekki í takt við síðustu mót. Liðið skoraði aðeins eitt mark úr opnum leik og það mark gerði Randal Kolo Muani í undanúrslitunum.

Franskir miðlar hafa skrifað um stöðu Deschamps síðustu daga, en forseti franska fótboltasambandsins segir engar líkur á því að hann verði látinn fara.

„Ég sé enga ástæðu af hverju við ættum að velta samning hans fyrir okkur. Úrslit síðustu ára tala sínu mál og öllum þeim markmiðum sem hann hefur náð. Didier mun halda áfram að stýra þessu verkefni. Á næstu dögum munum við ræða saman til að fara í djúpa greiningu á því hvað það vantaði í undanúrslitunum og hvað hefði getað komið okkur lengra. Síðasta mánuðinn hef ég séð mikla fagmennsku og þessa leit að framúrskarandi árangri. Við þurfum að halda áfram að færa liðið í þessa átt,“ sagði Diallo við L'Equipe.
Athugasemdir
banner
banner