Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   þri 20. ágúst 2024 12:06
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Albert: Heiður að vera sá dýrasti í sögunni
Mynd: Fiorentina
Albert Guðmundsson sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Fiorentina tilkynnti um komu hans til félagsins síðasta föstudag og í dag var hann spurður út í félagaskiptin af ítölsku pressunni.

„Mér líður vel, finn örlítið í kálfanum, en annars er ég góður. Þetta voru langar vðræður við Fiorentina. Það voru þegar viðræður í janúar, en á þeim tíma kom ekkert út úr því. Núna þegar Fiorentina kom upp aftur þá vildi ég strax koma til Flórens, af því að Fiorentina er frábært félag, með frábæra sögu," sagði Albert.

Fiorentina greiðir 8 milljónir evra fyrir Albert og er kaupskylduákvæði í lánssamningnum. Fiorentina þarf því að greiða aðrar 17 milljónir evra fyrir Íslendinginn til að fá hann alfarið og svo getur sú upphæð hækkað um 3,5 milljónir evra í árangurstengdum gjöldum. Alls gæti verðið því farið upp í 28,5 milljónir evra, eða um 4,3 milljarðar króna.

Það gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins. Nico Gonzalez, sem fenginn var frá Stuttgart á 24,5 milljónir evra, var áður sá dýrasti. Argentínumaðurinn er sterklega orðaður við Juventus í dag.

„Það er mikill heiður að vera keyptur fyrir svo háa upphæð. En jafnvel þó að ég hefði komið frítt þá hefði það ekki breytt skuldbindingu minni, hún hefði alltaf verið í hámarki. Þó að ég komi fyrir svona háa upphæð, þá mun ég ekki hugsa um það svo ég setji ekki pressu á sjálfan mig," sagði Albert.

Hann vonast til að vinna titil með Fiorentina. „Mér finnst félagið og stuðningsmennirnir eiga það skilið," sagði Albert sem vonast til að geta spilað sinn fyrsta leik fyrir landsleikjahlé.

Albert átti frábært tímabil með Genoa síðasta vetur, var besti leikmaður liðsins sem hélt sér örugglega uppi sem nýliði í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner