Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   þri 10. september 2024 23:27
Ívan Guðjón Baldursson
Undankeppni HM: James hetjan er Kólumbía sigraði Argentínu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þremur fyrstu leikjum kvöldsins er lokið í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM 2026.

Kólumbía tók á móti Argentínu í fyrsta leik kvöldsins og leiddi 1-0 í leikhlé þökk sé marki frá Yerson Mosquera, ungum varnarmanni Wolves. Hann skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá James Rodríguez í kjölfar hornspyrnu.

Kólumbía leiddi 1-0 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en Argentínumönnum tókst að jafna í upphafi síðari hálfleiks. Nicolás González, kantmaður Juventus, skoraði þá á 48. mínútu en heimamenn tóku forystuna á ný tólf mínútum síðar.

Þar var James Rodríguez aftur á ferðinni þar sem hann skoraði af vítapunktinum. Þetta reyndist sigurmark leiksins og er hinn 33 ára gamli Rodríguez hetja Kólumbíumanna enn eina ferðina.

Lionel Messi var ekki í leikmannahópi Argentínu vegna meiðsla.

Argentína trónir áfram á toppi undanriðilsins fyrir HM, með 18 stig eftir 8 umferðir, en Kólumbía er enn taplaus og situr í öðru sæti með 16 stig.

Enner Valencia, fyrrum leikmaður West Ham United og Everton, skoraði þá eina mark leiksins er Ekvador lagði Perú að velli.

Ekvador var talsvert sterkari aðilinn og verðskuldaði sigurinn. Ekvador fer upp í fjórða sæti undanriðilsins og er þar með 11 stig, eftir að þrjú stig voru dregin af þjóðinni fyrir að ljúga til um uppruna eins leikmanns landsliðsins.

Perú situr á botni riðilsins með 3 stig.

Að lokum vann Bólivía óvæntan sigur á útivelli gegn Síle, en þetta er annar sigur liðsins í röð. Bólivía getur því gert ólíklega tilraun til að koma sér á HM eftir rúmlega 30 ára fjarveru.

Ben Brereton Díaz, leikmaður Southampton, var í byrjunarliði Síle en fór meiddur af velli í fyrri hálfleik.

Kólumbía 2 - 1 Argentína
1-0 Yerson Mosquera ('25)
1-1 Nico Gonzalez ('48)
2-1 James Rodriguez ('60, víti)

Ekvador 1 - 0 Perú
1-0 Enner Valencia ('54)

Síle 1 - 2 Bólivía
0-1 Carmelo Algaranaz ('13)
1-1 Eduardo Vargas ('39)
1-2 Miguelito ('45+1)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner