Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   mið 21. ágúst 2024 16:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kolbeinn Finnsson til Utrecht (Staðfest)
Mynd: Utrecht
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Íslenski landsliðsmaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson var rétt í þessu kynntur sem nýr leikmaður hollenska úrvalsdeildarfélagsins Utrecht.

Utrecht kaupir hann af Lyngby og greiðir 500 þúsund evrur fyrir. Hann skrifar undir þriggja ára samning í Hollandi með möguleika á ári til viðbótar. Hann var einnig orðaður við Kortrijk og Holstein Kiel í sumar.

Hann er 24 ára og er uppalinn hjá Fylki. Utrecht rifjar upp að Kolbeinn hafi þreytt frumraun sína með meistaraflokki Fylkis þegar hann var 14 ára og varð með því yngsti leikmaður í sögu félagsins. Bent er á þá staðreynd að hann sé sonur fyrrum atvinnu- og landsliðsmannsins Finns Kolbeinssonar og hafi árið 2016 haldið til Groningen þar sem hann var til ársins 2018 en þá samdi hann við Brentford og lék þar með varaliði félagsins.

Eftir að hafa leikið með Fylki á láni sumarið 2020 hélt hann til Dortmund og var þar í tvö og hálft ár, lék þar með varaliðinu. Hann hélt svo til Lyngby í janúar 2023 og er nú kominn til Utrecht.

Hann á að baki 50 leiki fyrir yngri landsliðin og tólf fyrir A-landsliðið. Hann spilar oftast sem vængbakvörður en með landsliðinu hefur hann verið í vinstri bakvörður.

Hann verður fyrsti Íslendingurinn til að spila með aðalliði Utrecht. Þeir Sigmundur Kristjánsson og VIktor Bjarki Arnarsson voru á mála hjá félaginu á sínum tíma en léku ekki með aðalliðinu. Kolbeinn fær treyju númer 5 hjá félaginu.

„Það er mjög góð tilfinning að vera kominn hingað, borgin er flott. Ég heyrði af áhuga félagsins fyrst fyrir nokkrum vikum og var strax spenntur. Ég þekki aðeins til þjálfarans, Ron Jans, og það gerði mig aðeins spenntari. Við unnum saman hjá Groningen. Hann sýndi að hann vildi virkilega fá mig og félagið líka. Áhuginn gerði mig spenntan og ég lít á þetta sem rökrétt skref til að þróa minn feril áfram," sagði Kolbeinn m.a. í sínu fyrstu viðtali eftir komu sína.



Athugasemdir
banner
banner
banner