Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   fös 26. júlí 2024 09:57
Elvar Geir Magnússon
Segir frá óvæntri fótboltaupplifun á Íslandi - „Alistair Darling er helvítis asni“
Hannes Þór Halldórsson hafði í nægu að snúast í leik Fram og FH á Laugardalsvellinum 2009.
Hannes Þór Halldórsson hafði í nægu að snúast í leik Fram og FH á Laugardalsvellinum 2009.
Mynd: FH.is
Þess má geta að Tryggvi Guðmundsson skoraði bæði mörk FH í 2-0 sigri.
Þess má geta að Tryggvi Guðmundsson skoraði bæði mörk FH í 2-0 sigri.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Enski blaðamaðurinn Mike Whalley skrifaði skemmtilega grein í Guardian þar sem hann segist leitast eftir því að komast á fótboltaleiki þegar hann sé staddur erlendis í fríi.

Í greininni rifjar hann meðal annars upp heimsókn til Reykjavíkur árið 2009 en þá fór hann á leik Fram og FH í efstu deild, sem þá hét Pepsi-deildin, á Laugardalsvellinum.

Hann segir frá því hvernig 900 manns voru á 10 þúsund manna leikvanginum og að í marki heimamanna hefði verið Hannes Þór Halldórsson, sem síðar átti eftir að spila á HM og leikstýra myndbandi fyrir Eurovision.

„Á meðan Halldórsson átti vörslu eftir vörslu til að takmarka yfirburði Hafnarfjarðar við aðeins 2-0 sigur þá sneri kona í röðinni fyrir framan mig sér við og sagði eitthvað á íslensku. Ég baðst afsökunar á því að skilja hana ekki og útskýrði að ég væri blaðamaður frá Englandi sem væri í fríi frá England," skrifar Whalley.

„'This referee is shit,' sagði hún. Að gagnrýna dómarann er alþjóðlegt tungumál. Við spjölluðum meira saman og hún var forvitin af hverju Englendingur væri mættur á íslenskan deildarleik. Leiðir okkar skildu eftir leikinn en á kaffihúsi í miðbænum daginn eftir brá mér þegar hún birtist skyndilega við borðið hjá mér."

Whalley segir konuna hafa fengið sér sæti við borðið sitt og þau spjallað um bankahrunið á Íslandi. Hún var virkilega reið út í þáverandi fjármálaráðherra Bretlands sem virkjaði hin svokölluðu hryðjuverkalög til að frysta eignir íslenskra banka.

„'Partíið er búið fyrir okkur' sagði hún. Reiðin sást í augum hennar þegar hún bætti við: 'Þegar þú kemur aftur til Englands þá máttu segja fólki að Alistair Darling er helvítis asni!'," lýsir Whalley og segir að enginn túristabæklingur eða safn hefði fært sér þessa upplifun.

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner