KR vann 4-1 sigur á ÍBV á Alvogen-vellinum í dag í 18. umferð Pepsí-deildar karla. Finnur Orri Margeirsson leikmaður KR sagði að þeir hefðu spilað leikinn eins og þeir lögðu upp með og ekki gefið neinn afslátt þrátt fyrir að vera komnir með góða forrystu í hálfleik.
Lestu um leikinn: KR 4 - 1 ÍBV
„Við spiluðum eins og við lögðum upp með og gerðum það vel, við erum búnir að vera þéttir undanfarið og það hefur gengið vel. Ef þú gefur einhvern afslátt þá er stutt fyrir hin liðin að komast inn, við komum fínt inn í seinni hálfleikinn. Við vorum hungraðir og gáfum engan afslátt."
KR er með 30 stig í 4.sætinu og eru í kjörstöðu til að ná þessu Evrópusæti, Finnur segir að þeir ætli að sækja það sæti og ef þeir ná 3.sætinu af Blikum sé það bara bónus.
„Við bara höldum áfram að sækja þetta sæti og gerum það með áframhaldandi góðri spilamennsku, ekki spurning. Það yrði vissulega bónus að ná 3.sætinu en við ætlum fyrst og fremst að tryggja þetta Evrópusæti."
Þetta var frábær helgi fyrir Finn en hann varð faðir í gær þegar hann eignaðist strák og svo skoraði hann sitt fyrsta mark á ferlinum í dag. Finnur segir að hann muni aldrei gleyma þessari helgi.
„Ég ætla ekki að fara í einhverja fullyrðingar akkúrat núna en þetta var virkilega kærkomið. Þetta eru búnir að vera þokkalega góðir klukkutímar núna og maður fer bara heim að kíkja á strákinn. Þessi dagur verður eftirminnilegur."
Athugasemdir