
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvík, var kátur þegar hann mætti í viðtal hjá Fótbolta.net eftir sigur liðsins á Fram í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 0 - 1 Víkingur Ó.
„Ég er mjög ánægður við vorum að spila þokkalega vel í kvöld en það voru tvö góð lið og vel skipulögð sem spiluðu taktískt og agað svo það var gott að vinna þennan leik," sagði Ejub um leik sinna manna.
Nokkrir ungir leikmenn hafa verið að spila stór hlutverk í liði Víkinga það sem af er sumri og hlýtur það að vera gleðiefni fyrir Ólafsvíkinga.
„Við erum alltaf með nokkra spræka unga spilara. Þeir hafa spilað rosalega mikið núna og það er vonandi að þeir geti haldið áfram að spila svona í sumar og það var ánægjulegt að sjá að þeir geta spilað eins og í dag í svona hörkuleik."
Áhorfendur höfðu orð á að þeim hafi þótt dómarinn slakur en var Ejub sáttur með dómgæsluna?
„Já ég var bara þokkalega sáttur með dómarann þá sérstaklega í seinni hálfleik hann þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir í seinni hálfleik og mér fannst þær hárréttar."
Athugasemdir