Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari vill sjá menn ferska og tilbúna í vináttulandsleiknum gegn Noregi á morgun. Leikurinn verður 17:45 að íslenskum tíma.
„Ég vil að menn sýni að þeir séu tilbúnir í þetta lokamót. Það eru ekki allir tilbúnir í þennan leik, margir sem hafa spilað í Skandinavíu undanfarnar tvær vikur. Þeir þurfa á hleðslu að halda þessa daga. Við erum ekki að fara að spila á leikmönnum sem voru að spila í Skandinavíu," segir Heimir.
Leikmenn eru á misjöfnum stað og þarf þjálfarateymið að hugsa þetta nokkuð einstaklingsmiðað nú þegar tvær vikur eru í fyrst leik Íslands á EM.
„Það er ekki besta staðan að vera að fara í lokakeppni með 3-4 leikmenn sem léku fimm leiki á síðustu tveimur vikum. Það er ekki hægt að setja mikið álag á þá leikmenn og gera ráð fyrir því að þeir verði ferskir í þrjár til fjórar vikur í framhaldinu. Við þurfum að einstaklingsmiða allt sem við gerum í dag."
„Tilgangurinn með þessum leik er að spila leikmönnum eins og Aroni og Jóa Berg í gang, mönnum sem hættu fyrir löngu síðan. Það er tæpur mánuður síðan þeir spiluðu leik. Þeir sem voru að spila í fyrradag þurfa kannski frekar hvíld, andlega og líkamlega."
„Nú er tækifærið fyrir einhverja að spila sig inn í liðið. Það er ekki búið að ákveða byrjunarliðið gegn Portúgal," segir Heimir sem var að lokum spurður að því hvort við verðum ekki í 4-4-2?
„Það má búst við því! segir Heimir léttur en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir