Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   fim 04. janúar 2018 16:30
Magnús Már Einarsson
Hefur trú á að koma Cenk Tosun muni nýtast Gylfa vel
Cenk Tosun í leiknum gegn Íslandi í október.
Cenk Tosun í leiknum gegn Íslandi í október.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Everton er að landa framherjanum Cenk Tosun frá Besiktas á 27 milljónir punda. Tosun mætti Íslendingum í undankeppni HM síðastliðið haust en komst lítið áleiðis. Freyr Alexandersson, njósnari Íslands, hefur oft horft á leiki með Tosun og þekkir leikmanninn betur en margir.

„Þetta er frábær leikmaður. Hann er jafnfættur og tekur virkilega mikið til sín, á jákvæðan hátt. Það er oft talað svona um leikmenn sem skora ekki en hann skorar," sagði Freyr við Fótbolta.net í dag aðspurður út í Tosun.

„Hann leggur upp mörk, er ósérhlífinn og fer í návígi. Hann er ekkert sérstaklega hávaxinn en hann er fínn í loftinu."

„Ég hef trú á því að stóri Sam geti náð því besta úr honum. Maður veit ekki hvernig enskan hjá honum er og hvernig hann mun aðlagast ensku deildinni en þessi strákur hefur alla hæfileika til að standa sig vel."


Everton hefur ekki náð að fylla skarð Romelu Lukaku í fremstu víglínu en hann fór til Manchester United í sumar. Gylfi Þór Sigurðsson bættist í hópinn hjá Everton í sumar og hann telur að Tosun geti smollið vel saman með honum.

„Ef að Gylfi fær að spila sem tía þá er þetta frábært fyrir hann. Hann (Tosun) tekur mikið til sín, ýtir varnarlínunni niður og er tilbúinn að hlaupa og djöflast. Ég gæti trúað því að þetta muni nýtast Gylfa vel," sagði Freyr að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner