fim 10.apr 2025 11:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 6. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Stjarnan muni enda í sjötta sæti Bestu deildar kvenna í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir röðuðu liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. Stjarnan verður í neðsta sæti efri hlutans ef spáin rætist.
Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við Stjörnunni á miðju síðasta tímabili.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Stjarnan, 48 stig
7. FH, 47 stig
8. Fram, 25 stig
9. FHL, 19 stig
10. Tindastóll, 16 stig
Um liðið: Það gekk mikið á hjá Stjörnunni á tímabilinu í fyrra. Byrjunin á sumrinu var ekki ákjósanleg og liðið fór í gegnum þjálfarabreytingar á miðju sumri. Kristján Guðmundsson hætti eftir að hafa stýrt liðinu í nokkuð langan tíma og það urðu breytingar eftir það. Stjarnan náði þó ekki að koma sér í efri hlutann og tók hinn margumtalaða forsetabikar ásamt því að detta út úr bikarkeppninni á mjög svo grátlegan hátt. Síðasta sumar var ekki eins og Stjarnan hefði viljað, en stefnan í sumar er að gera betur og koma liðinu hærra, aftur í efri hlutann. Það er ekki langt síðan Stjörnunni var spáð Íslandsmeistaratitlinum, bara nokkur ár frá því það gerðist, en nú eru aðeins breyttir tímar í Garðabænum og það á að byggja liðið aftur upp til að komast á þann stað.
Þjálfarinn: Þegar Kristján hætti með Stjörnuna á miðju tímabili í fyrra, þá tók Jóhannes Karl Sigursteinsson við stjórnartaumunum. Hann hafði þá verið upp í stúku það sem af var tímabili og verið í leikgreiningu fyrir liðið. Hann þekkti stelpurnar vel og undir hans stjórn fóru hlutirnir að tikka betur. Kalli, eins og hann er kallaður, fékk áframhaldandi samning og stýrir Stjörnunni í sumar. Hann var síðast aðalþjálfari hjá KR tímabilin 2019-2022. Hann hætti hjá KR snemma tímabilsins 2022. Áður hafði hann þjálfað HK/Víking, Breiðablik og Stjörnuna, en hann er mjög reynslumikill í þjálfun.
Álit Magga
Magnús Haukur Harðarson, fyrrum þjálfari Fjölnis, er sérfræðingur Fótbolta.net í Bestu deild kvenna. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reykjavíkurmeistarar Stjörnunnar
„Heimsins besti Kalli áfram með liðið og undirbúningstímabilið hefur gengið vel og liðið varð meðal annars Reykjavíkurmeistari. Þrátt fyrir að vera spáð sjötta sæti gæti Stjarnan alveg eins endað í þriðja sæti en það þarf margt að ganga upp svo að það sé möguleiki."
„Blandan í liðinu er góð og innan um reynslumikla leikmenn eru ungar efnilegar stelpur sem munu taka stórt pláss í liðinu í sumar. Eins og með nokkur lið í þessari deild hef ég áhyggjur af markaskorun liðins og hver ætlar að draga vagninn þar en það hefur varið vöntun á framherja síðan Katrín Ásbjörns fór í Breiðablik. Valur hefur boðið nokkrum sinnum í Úlfu Dís og er gríðarlega mikilvægt að hún verði áfram í Garðabænum."
„Stjarnan veit hvernig fótbolta þær vilja spila en ef andstæðingar þeirra vinna heimavinnuna sína gætu þær verið í veseni gegn liðum spila fast og notast við leið eitt."
„Það verður gaman í Frystikistunni í sumar og ef liðið ætlar hærra þarf að nýta færin sem liðið skapar sér og lykilkonur þeirra þurfa að vera á tánum í sumar."
Lykilmenn: Anna María Baldursdóttir og Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir
Anna María hefur ótrúlega lengi verið lykilmaður fyrir Stjörnuna. Hún er fyrirliðinn í Garðabænum og andlit liðsins út á við. Hún er stórkostlegur karkater og þær geta alltaf treyst á hana innan sem utan vallar. Frábær leiðtogi að hafa í sínu liði. Svo gæti þetta verið sumarið þar sem Úlfa Dís springur algjörlega út. Hún hefur síðustu ár verið að fara út í háskóla en spilar núna allt sumarið heima sem er gríðarlega jákvætt. Hefur burði til að vera einn besti framherjinn í þessari deild. Valur hefur verið að reyna að kaupa hana en Stjarnan þarf að halda í hana.
Gaman að fylgjast með: Hrefna Jónsdóttir
Ungur sóknarmaður sem fékk mikið að spila í fyrra og fær væntanlega líka mikið tækifæri í sumar til að láta ljós sitt skína. Skoraði fjögur mörk í 17 leikjum í Bestu deildinni í fyrra og verður gaman að sjá hvort að hún nái að bæta við þann markafjölda í sumar. Hrefna er fædd árið 2007 og hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands en þar hefur hún gert ellefu mörk í 33 landsleikjum.
Komnar:
Vera Varis frá Keflavík
Birna Jóhannsdóttir frá HK
Margrét Lea Gísladóttir frá Breiðabliki
Jana Sól Valdimarsdóttir frá HK
Jakobína Hjörvarsdóttir frá Breiðabliki á láni
Farnar:
Hrafnhildur Salka Pálmadóttir til Vals (var á láni hjá HK)
Sóley Edda Ingadóttir til Vals
Hannah Sharts til Portúgals
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir til Kanada
Erin McLeod til Kanada
Katrín Erla Clausen til Fram
Ólína Ágústa Valdimarsdóttir til Fram
Jóhanna Melkorka Þórsdóttir hætt
Ingibjörg Erla Sigurðardóttir til Grindavíkur/Njarðvíkur
Samningslausar:
Halla Margrét Hinriksdóttir (1994)
Thelma Lind Steinarsdóttir (2005)
Mist Smáradóttir (2005)

Fyrstu fimm leikir Stjörnunnar:
15. apríl, Breiðablik - Stjarnan (Kópavogsvöllur)
22. apríl, Stjarnan - Víkingur R. (Samsungvöllurinn)
29. apríl, Tindastóll -Stjarnan (Sauðárkróksvöllur)
3. maí, Stjarnan - Valur (Samsungvöllurinn)
9. maí, FH - Stjarnan (Kaplakrikavöllur)
Spámennirnir: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Anton Freyr Jónsson, Brynjar Óli Ágústsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Mist Rúnarsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Athugasemdir