Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   þri 20. ágúst 2024 16:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Quansah fékk engan afslátt - „Það er bara geggjað þjálfaraauga"
Jarell Quansah.
Jarell Quansah.
Mynd: Getty Images
Arne Slot, stjóri Liverpool.
Arne Slot, stjóri Liverpool.
Mynd: EPA
Ibrahima Konate.
Ibrahima Konate.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Jarell Quansah átti ekki alveg sinn besta dag þegar Liverpool lék gegn Ipswich í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar síðasta laugardag.

Liverpool, sem var í fyrsta sinn að spila undir stjórn Hollendingsins Arne Slot í deildinni, vann leikinn 2-0 en frammistaðan var mun betri hjá liðinu í seinni hálfleiknum. Í þeim fyrri var ekki mikill munur á liðunum.

„Fyrri hálfleikurinn var bara ekki góður af hálfu Liverpool," sagði Baldvin Már Borgarsson, stuðningsmaður liðsins, í Enski boltinn hlaðvarpinu í gær.

„Þeir voru að þjösnast í þröngu uppspili... markmiðið með þessu er að fá Ipswich til að pressa hátt og þétt til að opna vængina. Þetta var engan veginn að ganga upp."

„Eins og Arne Slot kom sjálfur inn á í viðtali eftir leikinn, þá voru þeir að tapa návígunum. Það var allt erfitt og lélegt við þennan fyrri hálfleik."

Slot er ekki hræddur við að taka ákvarðanir snemma og í hálfleik tók hann Quansah út af þar sem hann var ekki að spila nægilega vel, hann fékk engan afslátt. Ibrahima Konate kom inn á fyrir hinn 21 árs gamla Quansah og allt liðið tók við sér þegar í seinni hálfleikinn var komið.

„Konate kemur inn á og Liverpool fer að vinna fleiri návígi. Þegar þú vinnur fleiri návígi þá ertu með betri stjórn á leiknum. Konate fór að fara vítt og fá boltann, hann var að spila honum úr víðum stöðum og Trent gat leyst inn á miðju. Dínamíkin og jafnvægið á liðinu með boltann varð allt annað og það opnaði Ipswich-liðið miklu betur," sagði Baldvin.

„Ég las tölfræði eftir leikinn að Quansah vann 50 prósent einvígi á meðan Konate keyrði þá tölfræði upp í 80 prósent," sagði Baldvin og bætti við:

„Mér finnst grjóthart að hann spotti það og taki afstöðu í því að liðið er ekki að spila nógu vel af því að það er ekki að vinna návígi sín. Quansah er ungur hafsent og það er örugglega ekki auðvelt að segja við hann að hann sé ekki að vinna návígi sín. Mér fannst hann ekkert ömurlegur í leiknum en leikurinn breyttist þvílíkt við það að hann fór út af. Það er bara geggjað þjálfaraauga. Þetta sýnir mér að Arne Slot er alvöru gaur."

Quansah kom sterkur inn í lið Liverpool á síðustu leiktíð en hann á mikið eftir ólært, enda ungur leikmaður. Hægt er að hlusta á umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Nýju gæjarnir flottir og Slot grjótharður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner