Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 23. ágúst 2024 20:08
Brynjar Ingi Erluson
Íslendingarnir í AB unnu annan deildarleikinn í röð - Geggjuð byrjun AGF
Mikael Neville átti flottan leik með AGF
Mikael Neville átti flottan leik með AGF
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Neville Anderson og hans menn í AGF unnu 4-0 stórsigur á Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld og eru nú á toppnum með 13 stig.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið frábær og einn af lykilmönnunum að góðum árangri AGF á tímabilinu.

Hann lék allan leikinn í 4-0 sigrinum á Álaborg á meðan Nóel Atli Arnórsson lék síðari hálfleikinn hjá heimamönnum.

AGF fer á toppinn með sigrinum, stigi á undan Silkeborg sem á leik til góða. Álaborg er í 8. sæti með 6 stig.

Ágúst Eðvald Hlynsson og Ægir Jarl Jónasson voru báðir í byrjunarliði AB sem vann Aarhus Fremad, 3-2, í dönsku C-deildinni. Þetta var annar sigurleikur AB í röð sem er með 7 stig eftir fjóra leiki. Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari liðsins.

Óttar Magnús Karlsson var í byrjunarliði Spal sem gerði 2-2 jafntefli við Ascoli í C-deildinni á Ítalíu. Spal er á botninum með -2 stig, en þrjú stig voru dregin af liðinu fyrir tímabil.

Helgi Fróði Ingason byrjaði sinn fyrsta leik með Helmond Sport er liðið gerði markalaust jafntefli við Emmen í hollensku B-deildinni. Helmond er með 5 stig eftir þrjá leiki.

Milos Milojevic og lærisveinar hans í Al Wasl gerðu þá 2-2 jafntefli við Ittihad Kaiba í 1. umferð í úrvalsdeild Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Al Wasl varði deildarmeistari undir stjórn Milosar á síðustu leiktíð.

Alfreð Finnbogason fékk að spreyta sig í nokkrar mínútur er Eupen gerði 2-2 jafntefli við Beveren í belgísku B-deildinni. Þetta voru fyrstu mínútur Alfreðs á tímabilinu, en hann sat allan tímann á bekknum í fyrstu umferðinni. Eupen er með 4 stig úr tveimur leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner