Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 23. ágúst 2024 20:40
Brynjar Ingi Erluson
Þýskaland: Dramatískur sigur meistaranna
Florian Wirtz var hetja Leverkusen
Florian Wirtz var hetja Leverkusen
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Granit Xhaka fagnaði ekki geggjuðu marki sínu, en hann var eitt sinn á mála hjá Gladbach
Granit Xhaka fagnaði ekki geggjuðu marki sínu, en hann var eitt sinn á mála hjá Gladbach
Mynd: EPA
Borussia M. 2 - 3 Bayer
0-1 Granit Xhaka ('12 )
0-2 Florian Wirtz ('38 )
1-2 Nico Elvedi ('59 )
2-2 Tim Kleindienst ('85 )
2-3 Florian Wirtz ('90 )
2-3 Florian Wirtz ('90 , Misnotað víti)

Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen hófu titilvörn sína á dramatískum 3-2 sigri á Borussia Mönchengladbach í þýsku deildinni í kvöld.

Leverkusen rúllaði upp deildinni á síðasta tímabili er félagið vann sinn fyrsta deildarititl í sögunni. Xabi Alonso, þjálfari liðsins, hefur haldið flest öllum frá síðustu leiktíð og tekist að bæta öflugum leikmönnum við hópinn.

Liðið hóf leik í kvöld og komst í 2-0 forystu. Granit Xhaka skoraði gersamlega sturluðu þrumuskoti fyrir utan teig og í samskeytin vinstra megin. Tilnefning sem flottasta mark mánaðarins og aðeins tólf mínútur búnar af tímabilinu.

Florian Wirtz tvöfaldaði forystuna á 38. mínútu. Xhaka fann Jeremie Frimpong hægra megin sem fékk dágóðan tíma til að leika að teignum áður en hann kom boltanum fyrir. Boltinn skoppaði á milli manna áður en WIrtz mætti og hamraði honum í netið.

Varnarmaðurinn Nico Elvedi minnkaði muninn á 59. mínútu með skoti af stuttu færi. Heimamenn tóku aukaspyrnu inn í teiginn sem var skölluð fyrir markið og til Elvedi. Hann átti skalla sem Lukas Hradecky varði aftur út á Elvedi sem lagði boltann í netið í annarri tilraun sinni.

Jöfnunarmark Gladbach kom fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Varnarmenn Leverkusen voru sofandi á verðinum. Kevin Stoger fékk boltann við teiginn eftir skyndisókn, átti lausa sendingu inn á Tim Kleindienst sem kom boltanum í netið.

Tíu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var það aðallega út af töf á byrjun síðari hálfleiksins vegna reyksprengju sem fyllti stúkuna og völlinn af reyk. Leverkusen reyndi að nýta uppbótartímann til að skora sigurmark og fékk liðið fullkomið tækifæri til þess á lokamínútu uppbótartímans.

Leverkusen fékk vítaspyrnu er brotið var á Amine Adli í teignum og var það Wirtz sem steig á punktinn. Jonas Omlin varði ágætt víti Wirtz, en boltinn datt aftur út í teiginn á þýska landsliðsmanninn sem skoraði af öryggi.

Ef það er eitt sem Leverkusen kann þá er það að stela sigrum í uppbótartíma. Svekkjandi hins vegar fyrir Gladbach sem var grátlega nálægt því að sækja stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner