Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   lau 24. ágúst 2024 18:02
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Grindavík slátraði Dalvík/Reyni - Leiknismenn léku sér að Þórsurum
Lengjudeildin
Grindvíkingar voru í ham
Grindvíkingar voru í ham
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Róbert Quental átti flottan leik með Leikni
Róbert Quental átti flottan leik með Leikni
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Dalvík/Reynir er á botninum með 13 stig
Dalvík/Reynir er á botninum með 13 stig
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík og Leiknir unnu stórsigra í 19. umferð Lengjudeildar karla í dag.

Leiknir vann sannfærandi 5-1 sigur á Þór á Domusnova-vellinum í Breiðholti.

Þórsarar höfðu ekki unnið deildarleik síðan 13. júlí og varð engin breyting á því í dag.

Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Þórs en þurfti að fara af velli eftir rúmar tuttugu mínútur eftir að hafa fengið högg á lærið.

Þórsarar fengu stórhættulegt færi eftir tæpan hálftíma en Viktor Freyr Sigurðsson varði í slá og í næstu sókn skoruðu Leiknismenn er Shkelzen Veseli setti boltann undir Aron Birki Stefánsson í markinu. Tveimur mínútum síðar bætti Róbert Hauksson við öðru marki með skalla eftir hornspyrnu.

Þórsarar náðu að bíta frá sér. Sigfús Fannar Gunnarsson minnkaði muninn eftir hornspyrnu Arons Kristófers Lárussonar og eftir smá darraðadans í teignum kom Sigfús boltanum í netið.

Leiknismenn komu sterkari inn í síðari hálfleikinn og komu sér aftur í tveggja marka forystu með marki Veseli. Hann og Róbert Quental Árnason spiluðu sín á milli áður en Veseli afgreiddi boltann í netið.

Sjö mínútum síðar bætti Róbert Quental við fjórða markinu. Veseli kom boltanum á Róbert sem vippaði yfir Aron og í markið. Róbert var aftur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar. Hann fékk boltann í teignum og gerði endanlega út um leikinn.

Þægilegur og stór sigur Leiknis staðreynd. Leiknismenn fara upp í 9. sæti með 21 stig en Þór í 10. sæti með 19 stig.

Slátrun á Dalvíkurvelli

Grindavík fór illa með nýliða Dalvíkur/Reynis á Dalvíkurvelli í dag en lokatölur urðu 7-1, gestunum í vil.

Heimamenn fengu draumabyrjun er Áki Sölvason skoraði eftir mikið klafs í teignum.

Tuttugu mínútum síðar fóru gestirnir að banka og kom jöfnunarmarkið fyrir rest. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson gerði eftir mikinn sóknarþunga Grindvíkinga.

Staðan 1-1 í hálfleik en heimamenn áttu eftir að fá slæma útreið í þeim síðari.

Ian Perelló skoraði himneskt mark snemma í síðari. Gestirnir fengu aukaspyrnu sem Perelló stýrði upp í samskeytin nær, slá og inn.

Átta mínútum síðar stangaði Sigurjón Rúnarsson hornspyrnu Grindvíkinga í netið og næst var það Adam Árni Róbertsson sem gerði fjórða markið með glæsilegri hjólhestaspyrnu. Frábær mörk hjá Grindvíkingum sem héltu áfram að hamra á heimamönnum.

Fimmta markið kom á 76. mínútu. Perelló kom með spyrnu inn á teiginn og á Daniel Arnaud Ndi sem kom boltanum í netið af stuttu færi.

Grindvíkingar bættu tveimur mörkum til viðbótar áður en flautað var til leiksloka. Adam Árni skoraði annað mark sitt eftir fast leikatriði og þá gerði Kristófer Konráðsson stórglæsilegt mark með skoti upp í samskeytin vinstra megin.

Magnaður 7-1 sigur Grindvíkinga sem eru í 8. sæti með 24 stig en Dalvík/Reynir áfram á botninum með 13 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Úrslit og markaskorarar:

Leiknir R. 5 - 1 Þór
1-0 Shkelzen Veseli ('31 )
2-0 Róbert Hauksson ('33 )
2-1 Sigfús Fannar Gunnarsson ('36 )
3-1 Shkelzen Veseli ('59 )
4-1 Róbert Quental Árnason ('66 )
5-1 Róbert Quental Árnason ('79 )
Lestu um leikinn

Dalvík/Reynir 1 - 7 Grindavík
1-0 Áki Sölvason ('10 )
1-1 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('39 )
1-2 Ion Perelló Machi ('50 )
1-3 Sigurjón Rúnarsson ('58 )
1-4 Adam Árni Róbertsson ('67 )
1-5 Daniel Arnaud Ndi ('76 )
1-6 Adam Árni Róbertsson ('82 )
1-7 Kristófer Konráðsson ('88 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 21 11 5 5 49 - 26 +23 38
2.    Fjölnir 21 10 7 4 34 - 24 +10 37
3.    Keflavík 21 9 8 4 33 - 24 +9 35
4.    ÍR 21 9 8 4 30 - 25 +5 35
5.    Afturelding 21 10 3 8 36 - 36 0 33
6.    Njarðvík 21 8 8 5 32 - 27 +5 32
7.    Þróttur R. 21 7 6 8 32 - 29 +3 27
8.    Leiknir R. 21 8 3 10 32 - 33 -1 27
9.    Grindavík 21 6 7 8 38 - 44 -6 25
10.    Þór 21 5 8 8 30 - 37 -7 23
11.    Grótta 21 4 4 13 30 - 48 -18 16
12.    Dalvík/Reynir 21 2 7 12 21 - 44 -23 13
Athugasemdir
banner
banner