Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   lau 24. ágúst 2024 16:20
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: Mikilvægt að leikmenn haldi einbeitingu allan leikinn
Mynd: EPA
Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, svaraði spurningum eftir 2-1 tap gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Það var ýmislegt sem Rauðu djöflarnir hefðu mátt gera betur í leiknum og veigraði þjálfarinn sér ekki undan því að svara spurningum fréttamanna.

„Við þurfum að spila betur sem liðsheild og núna þurfum við að undirbúa okkur fyrir erfiða leikjahrinu sem er framundan," sagði Ten Hag eftir tapið og var spurður út í möguleg félagaskipti á lokaviku sumargluggans.

„Við erum alltaf tilbúnir til að kaupa leikmenn sem bæta leikmannahópinn okkar en eins og staðan er í dag þá erum við ánægðir með hópinn sem við höfum. Ef við munum ná í nýja leikmenn þá munum við tilkynna það opinberlega sem félag."

Rauðu djöflarnir eru með þrjú stig eftir tvær umferðir á nýju úrvalsdeildartímabili.

„Við erum með mjög efnilegt lið en það er mikilvægt að leikmenn haldi einbeitingu allan tímann. Við gáfum alltof ódýrt mark seint í uppbótartíma og leikmenn mega ekki gleyma því að leikurinn er ennþá í gangi alveg þangað til að dómarinn flautar í lokin. Við lærum vonandi af þessu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner