Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   fim 25. júlí 2024 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hlynur Freyr: Smá sjokk að Haugesund samþykkti tilboðið
Þreytti frumraun sína með A-landsliðinu í janúar.
Þreytti frumraun sína með A-landsliðinu í janúar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Á landsliðsæfingu í júní.
Á landsliðsæfingu í júní.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var aðallega svekkjandi að missa af tækifæri til að komast betur inn í hópinn og kynnast strákunum'
'Það var aðallega svekkjandi að missa af tækifæri til að komast betur inn í hópinn og kynnast strákunum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Logi var líka keyptur til Haugesund eftir síðasta tímabil á Íslandi.
Anton Logi var líka keyptur til Haugesund eftir síðasta tímabil á Íslandi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Óskar Hrafn stýrði liði Haugseund í sex deildarleikjum en sagði svo upp.
Óskar Hrafn stýrði liði Haugseund í sex deildarleikjum en sagði svo upp.
Mynd: Haugesund
Samdi til þriggja ára í Svíþjóð.
Samdi til þriggja ára í Svíþjóð.
Mynd: BP
Haugesund keypti Hlyn Frey af Val eftir öfluga frammistöðu tímabilið 2023.
Haugesund keypti Hlyn Frey af Val eftir öfluga frammistöðu tímabilið 2023.
Mynd: Haugesund
Olof Mellberg er þjálfari Brommapojkarna.
Olof Mellberg er þjálfari Brommapojkarna.
Mynd: Getty Images
Hlynur Freyr Karlsson var í upphafi mánaðar tilkynntur sem nýr leikmaður sænska félagsins Brommapojkarna en hann var keyptur til félagsins eftir hálfs árs dvöl hjá Haugesund í Noregi.

Hlynur er U21 landsliðsmaður sem lék sína fyrstu A-landsleiki í janúar. Hann var svo í landsliðshópnum fyrir leikina í júní en gat ekki tekið þátt í leikjunum vegna meiðsla og dró sig úr hópnum. Fótbolti.net ræddi við hinn tvítuga Hlyn um félagaskiptin til Svíþjóðar og ýmislegt annað.

„Ég var svo sem ekkert að pæla í því að skipta um félag. Ég var samt ekkert sérstaklega sáttur við stöðuna mína hjá Haugesund, var ekki búinn að spila mikið. Þetta kom upp á borðið og ég var klár í þetta," segir Hlynur.

„Ég heyrði bara fyrst af áhuga þeirra vikunni fyrir sjálf skiptin. Þetta gerðist allt mjög hratt. Bjarki umboðsmaður hringdi í mig og lét vita að Haugesund væri búið að samþykkja tilboð."

„Mér leist bara strax mjög vel á þetta, að fara til Stokkhólms hljómaði mjög vel og ég var klár."


Brommapojkarna, eða BP eins og það er oft kallað, er í sænsku úrvalsdeildinni. „Það var mjög vel tekið á móti mér. Þetta er ekki stærsti klúbburinn hér í Stokkhólmi en í gegnum tíðina hafa þeir verið öflugir í því að selja leikmenn áfram."

Olof Mellberg er þjálfari liðsins. Hann er stórt nafn í sænska boltanum og lék á sínum ferli m.a. með Aston Villa og Juventus og var fyrirliði landsliðsins. „Hann átti flottan feril, ég kynnti mér hann aðeins þegar ég vissi að þeir vildu kaupa mig."

Hlynur var hreinskilinn þegar hann var spurður hvað hann hefði vitað um félagið áður en það sýndi honum áhuga. „Ég hafði tekið eftir því þar sem það er svolítið erfitt að segja nafnið á liðinu. Það svona aðallega vakti athygli."

„Ég ræddi við aðstoðarþjálfarann (Andreas Engelmark) áður en ég tók ákvörðun um að semja við félagið og svo var einn í Haugesund (Oscar Krusnell) sem hafði verið hjá BP. Ég talaði við hann og ég fékk smá upplýsingar um félagið."


Keyptur sem miðvörður
BP kaupir Hlyn og er hugsunin að nota hann í stöðu miðvarðar. „Ég get leyst hægri bakvörðinn og miðjuna, en er aðallega hugsaður sem miðjumaður."

Hlynur telur ágætis líkur á því að hann fái að spila talsvert með liðinu. „En það er samkeppni eins og hjá eiginlega öllum liðum. Ég er jákvæður á þetta."

Hlynur glímdi við meiðsli við komuna til Svíþjóðar. „Ég fann smá fyrir þessu fyrir landsleikahléið. Þetta versnaði þá, þetta voru meiðsli aftan í læri."

Ekkert smá mikið svekkelsi
Hann var í A-landsliðinu í janúar en missti af tækifærinu á því að taka þátt í leikjum gegn Englandi og Hollandi í síðasta mánuði. Hann var valinn í hópinn en þurfti að draga sig úr honum.

„Þetta var ekkert smá mikið svekkelsi, alveg hrikalegt að þetta þurfti akkúrat að gerast þarna. Mjög svekkjandi. Það var geðveikt að fá kallið, var alveg í skýjunum með þetta og eiginlega trúði þessu ekki. Ég var ekki búinn að spila mikið og var því ekki beint að búast við þessu."

Svo dæmi sé tekið þá var Valgeir Lunddal Friðriksson kallaður inn í landsliðshópinn og endaði á því að koma við sögu í báðum leikjunum. Er extra svekkjandi að horfa til baka og ímynda sér að það var möguleiki á mínútum í þessu verkefni?

„Ég pældi ekkert í því. Það var aðallega svekkjandi að missa af tækifæri til að komast betur inn í hópinn og kynnast strákunum. Ég horfi á það þannig að það var geggjað að vera valinn og allt ofan á það hefði verið plús."

Hlynur var á bekknum í fyrsta sinn þegar BP mætti Hammarby. Það styttist því að hann þreyti frumraun sína fyrir félagið. Liðið er í 11. sæti og næsti leikur er gegn Gautaborg á laugardag.

Svekkjandi að fá lítið að spila
Hlynur var í um það bil hálft ár hjá Haugesund í Noregi. Norska félagið keypti hann af Val þar sem Hlynur átti virkilega gott fyrsta tímabil í meistaraflokki. Hlynur er uppalinn hjá Breiðabliki en fór ungur út í akademíuna hjá Bologna en sneri heim til Íslands fyrir síðasta tímabil.

Hann var alltaf í leikmannahópi Haugesund þann tíma sem hann var hjá félaginu en byrjaði einungis einn leik í norsku deildinni og kom tvisvar sinnum inn á. Þá lék hann allan leikinn í vonbrigðatapi í bikarnum.

„Lífið var ágætt. Haugesund er alls ekki stór bær og lítið hægt að gera annað en einbeita sér að fótboltanum og huga um hann. Ég og Anton (Logi Lúðvíksson) vorum mikið saman, gerðum alls konar hluti saman. Það var mjög gott að hafa hann með sér."

„Ég fékk ekki mikið að spila. Sem fótboltamaður viltu vera spila og það er svekkjandi þegar staðan er ekki þannig, en svona er bara boltinn."


Anton var í stærra hlutverki en Hlynur, byrjaði alla leikina til að byrja með, var svo á bekknum eftir þjálfaraskipti en hefur tekið þátt í öllum leikjum tímabilsins.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti
Óskar Hrafn Þorvaldsson fékk Hlyn til félagsins í vetur en Óskar hætti óvænt sem þjálfari Haugesund í byrjun maí. Hlynur var spurður hvort það hefði einhver breyting átt sér stað eftir að Óskar fór frá félaginu.

„Staðan mín var áfram mjög svipuð, fékk áfram lítið að spila. Það voru tveir hafsentar sem spiluðu alla leikina og svo var ég þriðji hafsent. Það var enginn annar hafsent í hópnum."

Þegar Óskar yfirgaf félagið óvænt, hafðir þú hugmynd um að eitthvað gæti verið að gerast?

„Þetta var bara þruma úr heiðskíru lofti, ég var alls ekki að búast við þessu. Þetta var sjokk fyrir allan hópinn."

Hvernig leið þér með að vera ekki lengur með þjálfarann sem fékk þig?

„Mér fannst það mjög skrítið. Hann er náttúrulega Íslending og þá er eðlilega öðruvísi tenging við þjálfarann."

Urðu miklar breytingar á leikstílnum eftir að aðstoðarþjálfarinn tók við?

„Já, leikstíllinn og æfingarnar. Áherslurnar urðu aðrar, aðstoðarþjálfarinn setti sínar áherslur á æfingarnar og liðið, eins og gerist þegar það verða þjálfaraskipti."

Kom á óvart að heyra af samþykktu tilboði
Hlynur var svo í lok viðtals spurður hvort það hefði komið sér á óvart að Haugesund hefði samþykkt tilboð í sig.

„Ég var þriðji hafsent og mér fannst það smá sjokkerandi að þeir virtust strax samþykkja tilboð. Ég veit ekki hvað fór á milli félaganna, en þetta gerðist allavega mjög fljótt. Ég var ekki búinn að heyra að þeir ætluðu sér að taka inn annan miðvörð eða neitt slíkt," sagði Hlynur.

Þess má geta að Haugesund keypti á dögunum Mikkel Fischer af Midtjylland en hann er danskur miðvörður.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner