Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 26. júlí 2024 13:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Finnst eins og þessi lið séu að hafa dómarana að hálfgerðum fíflum"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Víkings og Shamrock.
Úr leik Víkings og Shamrock.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Færeyska dómarateymið sem dæmdi leik Víkings og albanska liðsins Egnatia á Víkingsvelli í gær fékk 5 í einkunn frá Haraldi Erni Haraldssyni fréttaritara Fótbolta.net eftir leikinn.

„Það sem dregur þá mest niður er hvað þeir réðu illa við leiktafirnar hjá Egnatia, þeir komust upp með allt of mikið sem drap taktinn í leiknum alveg töluvert," skrifaði Haraldur í skýrslunni eftir leikinn. Egnatia vann leikinn 0-1 og leiðir því einvígið fyrir seinni leikinn.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 -  1 Egnatia

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn og tjáði sig um dómarana.

„Ég talaði aðeins við dómarann eftir leikinn. Þeir dæmdu leikinn vel og allt svoleiðis en, við sáum þetta líka á móti Shamrock þegar markmaðurinn var að tefja frá fyrstu mínútu, gefið bara spjald fyrir tafir aðeins fyrr og leyfið leiknum að ganga áfram. Í báðum þessum leijum kom spjald eftir 80. mínútu. Mér finnst eins og þessi lið séu að hafa dómarana að hálfgerðum fíflum. Svona lið, eins leiðinlegt og það er að segja það, þrífast á svona atriðum."

„Ég skil alveg Albanana að vera með leiðindi, það er ekkert við þá að sakast. Þeir eru bara að reyna að halda sér innan laganna ramma. En mér finnst í Evrópu að dómararnir þurfi að taka aðeins betur á þessu,"
sagði Arnar.

Víkingur mætir Egnatia næsta fimmtudag í Albaníu. Egnatia er í áhorfendabanni og því verður leikið fyrir luktum dyrum á Loro Borici leikvanginum í Shköder sem er sami völlur og Valur spilaði á gegn Vllaznia í síðustu viku.

„Við sáum Val fara og vinna mjög góðan 4-0 sigur. Við í þjálfarateyminu þurfum að fá menn trúa á hvað sé að fara gerast. Menn eru bara langt niðri, mikil keppnismenn. Í síðustu fjórum leikjum höfum við ekki verið lélegir en við höfum bara skorað eitt mark. Ég hef verið lengi í þessum bransa, þekki hann inn og út, og mitt hlutverk að miðla minni reynslu til strákanna. Það er ekki öll nótt úti ef við erum klókir," sagði Arnar.

Næsti leikur Víkings verður gegn HK á sunnudag og í kjölfarið fer liðið út til Albaníu. Sigurvegarinn í einvígi Víkings og Egnatia fer áfram í 3. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Arnar Gunnlaugs: Verður bara að reyna að krafla þig úr þessari holu
Athugasemdir
banner
banner
banner