Liverpool til í að berjast við Man Utd um Branthwaite - Southgate líklegastur til að taka við af Ten Hag
   mið 02. október 2024 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Arnar Gunnlaugs: Get lofað þér því að hann er ekki á íslenskum launum
Víkingur spilar á morgun gegn Omonoia á Kýpur.
Víkingur spilar á morgun gegn Omonoia á Kýpur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erlingur missir af leiknum vegna meiðsla.
Erlingur missir af leiknum vegna meiðsla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mér finnst vera gott flæði í leikmönnum núna, menn eru mátulega kokhraustir og líður vel í öllu sem við erum að gera'
'Mér finnst vera gott flæði í leikmönnum núna, menn eru mátulega kokhraustir og líður vel í öllu sem við erum að gera'
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jovetic er nýkominn til Omonoia og verður ekki með á morgun.
Jovetic er nýkominn til Omonoia og verður ekki með á morgun.
Mynd: Getty Images
'Ég hef komist að því í þjálfuninni að þetta er eins og að vera kennari, þú ert stanslaust í upprifjun.'
'Ég hef komist að því í þjálfuninni að þetta er eins og að vera kennari, þú ert stanslaust í upprifjun.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við vorum mögulega ekki rétt stilltir fyrir bikarúrslitaleikinn'
'Við vorum mögulega ekki rétt stilltir fyrir bikarúrslitaleikinn'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ef við verðum með varnarleik eins og á móti Val, þá verður þetta erfitt'
'Ef við verðum með varnarleik eins og á móti Val, þá verður þetta erfitt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mér líður eins og við séum smá komnir í elítuna, þó að þetta sé ekki Meistaradeildin, þá er þetta okkar Meistaradeild.'
'Mér líður eins og við séum smá komnir í elítuna, þó að þetta sé ekki Meistaradeildin, þá er þetta okkar Meistaradeild.'
Mynd: EPA
Víkingur spilar á morgun sinn fyrsta leik í Sambandsdeildinni sjálfri. Liðið fór í gegnum forkeppnina eftir að hafa fallið úr forkeppni Meistaradeildarinnar, en nú er komið að stóra sviðinu.

Framundan er leikur gegn Omonoia í Nikósíu, þriðja besta liði Kýpur á síðustu leiktíð. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net.

Lestu um leikinn: Omonoia 0 -  0 Víkingur R.

„Við erum á leiðinni á æfingu núna og blaðamannafund. Í dag voru bara tveir fundir hjá okkur, hefðbundinn undirbúningur. Það er nóg að borða í þessum ferðum, maður er alltaf borðandi. Maður þarf að passa sig svolítið," sagði Arnar léttur á því.

„Það er þriggja tíma mismunur, ég held þetta sé allt í lagi. Þetta er ekki alveg eins og fara á vesturströnd Bandaríkjanna, en þrír tímar er samt alveg töluvert. Það er fínt að fá daginn í dag til að venjast þessu aðeins. Vonandi ná menn eðlilegum svefnhring í nótt."

„Við keyrðum framhjá vellinum í gær, sáum nú ekki mikið. En af þeim leikjum sem við höfum séð þá virkar hann mjög flottur og mjög flottir stuðningsmenn; 'ultras' hópur og við eigum von á látum á morgun."


Tíu kílóum léttari þegar vel gengur
Arnar segir að standið á hópnum sé nokkurn veginn óbreytt frá síðasta leik. Erlingur Agnarsson nær ekki leiknum og sömu sögu er að segja af Matthíasi Vilhjálmssyni og Pablo Punyed sem verða frá í lengri tíma.

„Það góða við Valsleikinn var að Davíð (Örn Atlason) og Niko (Nikolaj Hansen) fengu góðar mínútur til að testa sig almennilega. Það komust allir vel út úr þeim leik."

Víkingur vann Val með sigurmarki í uppbótartíma og upplifðu menn eflaust mikla gleði í kjölfarið. Er ekki svolítið erfitt að finna fyrir einhverjum meiðslum núna, hverfa ekki smá meiðsli hér og þar í velgengni?

„Það þarf að vera ansi mikið svo leikmenn vilji sleppa leik eins og þessum, það þarf mjög mikið að ganga á. Það hefur gengið ansi mikið á í sumar samt. Þú ert tíu kílóum léttari þegar vel gengur."

„Mér finnst vera gott flæði í leikmönnum núna, menn eru mátulega kokhraustir og líður vel í öllu sem við erum að gera. Þá náttúrulega kemur trúin með í kjölfarið. En þetta er fljótt að fara í hina áttina. Tap á morgun og tap gegn Stjörnunni og ég get lofað því að menn verða ekki jafn kokhraustir. Það þarf líka að vera með smá hræðsluáróður."


Eins og krakki í leikfangabúð
Hvernig leggst það í þig að fara stýra þínum fyrsta leik í sjálfri Sambandsdeildinni?

„Ég er mjög spenntur, eins og krakki í leikfangabúð. Þetta er búið að vera langt og strangt ferli. Mér líður eins og við séum smá komnir í elítuna, þó að þetta sé ekki Meistaradeildin, þá er þetta okkar Meistaradeild. Undirbúningurinn verður einhvern veginn meiri og skarpari, fleiri fundir og meira farið í smáatriði sem þroskar mann mikið sem þjálfara."

Sem betur fer spilar hann ekki á morgun
Omonoia hefur unnið deildina á Kýpur 21 sinni og hefur alls spilað 173 Evrópuleiki. Í leikmannahópi liðsins (skv. Wikipedia) eru leikmenn frá 17 löndum.

„Það er leikmenn frá löndum sem menn kannski þekkja ekki mikið til. Í þessum löndum geta dúkkað upp helvíti góðir leikmenn, félagið er með mikið fjármagn og voru sem dæmi að taka inn Stevan Jovetic sem er fyrrum leikmaður Manchester City. Hann er ekki á íslenskum launum, ég get lofað þér því. Sem betur fer er hann ekki að spila á morgun."

„Þeir eru með svakalega góða einstaklinga og virka öflugt lið, eru teknískir. Ég ætla ekki að tala illa um hin liðin sem við höfum mætt í sumar, en ég held að þetta sé af öllum ólöstuðum besta liðið sem við höfum spilað. Þetta lið er kannski á pari við Lech Poznan og Malmö, lið sem við spiluðum við 2022. Það er þannig fílingur fyrir þessu og þannig fílingur af vellinum. Þurfum að líta í þá reynslu fyrir lætin á morgun."

„Manni líður eins og ef menn geri ein lítil mistök þá ertu kominn 2-0 undir á núll einni, okkur verður refsað fyrir mistök. Ef við verðum með varnarleik eins og á móti Val, þá verður þetta erfitt."


Þurfa að vera vera góðir í öllu á morgun
Víkingur vill halda í boltann og stjórna leikjunum þannig. Arnar var spurður hvort Víkingur gæti haft stjórn á leiknum með því að liggja til baka á morgun.

„Við þurfum eiginlega að vera góðir í öllu á morgun. Við þurfum að eiga okkar pressu augnablik, reyna stjórna með því að vera með boltann, en það verða örugglega fleiri augnablik en við erum vanir þar sem við þurfum að vera í lágvörn og gera það eins og menn. Við lendum ekki oft í þeirri stöðu í langan tíma á Íslandi, en höfum aðeins gert það í Evrópu, sérstaklega eftir að hafa náð forskoti. Við þurfum að vera klárir í okkar leikstjórn, vera tilbúnir að skipta um kerfi og vera með allt upp á tíu."

Eins og að vera kennari
Hvernig stillir maður spennustigið í hópnum af fyrir stóran leik eins og þennan?

„Þetta snýst oftast um að leita í reynslubankann. Þetta er þokkalega rútínerað lið, hefur spilað marga stóra leiki. Við vorum mögulega ekki rétt stilltir fyrir bikarúrslitaleikinn, en í útileikjunum í Evrópu höfum við náð að halda spennustiginu hárréttu. Það hafa komið leikir í deildinni þar sem þetta hefur ekki verið upp á tíu og þá getur allt gerst. Það þarf að minna menn stanslaust á hlutina. Ég hef komist að því í þjálfuninni að þetta er eins og að vera kennari, þú ert stanslaust í upprifjun. Þetta eru svo mörg atriði og þú getur ekki verið með þriggja tíma fund fyrir hvern einasta leik. Það þarf að velja og hafna. Eins og síðasta leik, þá voru einhverjir hlutir að klikka. Maður rýnir þá sérstaklega í það, reynir að finna hvers vegna. En þegar allt kemur til alls þá eigum við alltaf að leita í strúktúrinn okkar þegar eitthvað kemur upp og unnið okkur út frá því."

„Oftar en ekki, sérstaklega þegar það er kannski heitt og þú ert orðinn þreyttur, þá fer hausinn og einbeitingin. Þá er erfitt að vera í einhverri óreiðu, því andstæðingarnir refsa um leið. Þá þarf að leita í strúktúrinn. Við höfum oft séð þetta hjá landsliðinu gegn sterkari liðum og það er eins hjá félagsliðum."


Kynþokkafullt fyrirkomulag
Arnar hefur talað um að markmið Víkings sé að komast í umspilið í Sambandsdeildinni; verða í 9.-24. sæti í þessari 36 liða deild. Hvert mark getur talið í keppninni, markatala getur skipt máli.

„Algjörlega. Þetta er mjög kynþokkafullt fyrirkomulag, þetta deildarfyrirkomulag. Þú ert kannski farinn að hugsa þína möguleika á annan hátt. Eitt stig á morgun væri geggjað, þrjú stig auðvitað algjör draumur í dós. Ef þú tapar þá viltu sýna góða frammistöðu, eitthvað til að byggja ofan á. Það eru alls konar litlar keppnir inn í þessari keppni. Fyrst við erum komnir hingað þá eigum við klárlega að stefna að þessum sætum," segir þjálfari Víkings.

Leikurinn hefst klukkan 16:45 og verður í textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner