Man City og Liverpool berjast um Zubimendi - Ramos aftur til Real Madrid - Barca hættir við Alexander-Arnold
banner
   þri 04. júní 2024 21:23
Brynjar Ingi Erluson
Ísland tók stórt skref í átt að EM
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hildur ANtonsdóttir fagnar sigurmarkinu
Hildur ANtonsdóttir fagnar sigurmarkinu
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísland 2 - 1 Austurríki
1-0 Hlín Eiríksdóttir ('17 )
1-1 Eileen Campbell ('44 )
2-1 Hildur Antonsdóttir ('70 )
Lestu um leikinn

Íslenska kvennalandsliðið vann gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Austurríki í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvelli í kvöld, en liðið kom sér afar jákvæða stöðu fyrir síðustu tvo leikina.

Strekkingsvindur og kuldi skapaði ekki beint ákjósanlegar aðstæður til að spila fótbolta, en veðrið hafði mikil áhrif á hvernig leikurinn spilaðist.

Íslenska liðið byrjaði á móti vindi og gerði bara nokkuð vel. Helsta hætta austurríska liðsins kom eftir fyrirgjafir sem vindurinn greip og breytti í ágætis færi.

Á 17. mínútu dró til tíðinda. Guðrún Arnardóttir átti frábæran sprett upp vinstra megin, lék á varnarmann áður en hún skilaði boltanum á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Hún kom boltanum hægra megin í teiginn á Hlín Eiríksdóttur sem var alein. Hlín hefur verið sjóðandi heit með Kristianstad í Svíþjóð og tók það með sér inn í þetta verkefni. Hlín lagði boltann á milli lappa Jasmin Pal og í netið.

Austurríska liðið tók skemmtilega tilraun í miðjusparkinu. Þær nýttu sér vindinn, en boltinn ofan á markið. Ágætis tilraun hjá þeim.

Ísland virtist ætla að halda forystu út hálfleikinn en á 44. mínútu kom jöfnunarmark gestanna. Boltinn flökti í loftinu eftir fyrirgjöf frá hægri og beint á Eileen Campbell sem henti sér í flugskalla og stýrði boltanum í hægra hornið.

Staðan í hálfleik 1-1. Fínasta frammistaða íslenska liðsins á móti vindi og í síðari fengu þær hann með sér í lið.

Strax í byrjun síðari hálfleiks var Karólína Lea nálægt því að skora beint úr hornspyrnu. Vindurinn greip hornspyrnu hennar og fleygði boltanum í stöng og út.

Fimm mínútum síðar kom Sveindís Jane Jónsdóttir sér í kjörið færi til að skora er hún hljóp inn í teiginn hægra megin, en skot hennar rétt framhjá markinu.

Á 56. mínútu fengu Íslendingar aðra hornspyrnu og aftur setti Karólína háan bolta sem hafnaði í stöng. Guðrún Arnardóttir var á fjærstönginni en náði ekki að pota boltanum í netið.

Sex mínútum síðar skapaði Ísland sér frábært færi. Sveindís keyrði inn vinstra megin, kom boltanum í teiginn á Hlín, sem tók snúninginn og skaut, en Pal varði frábærlega út í teiginn.

Sveindís náði oft að skapa hættu inn á teig austurríska liðsins með innköstum sínum. Boltinn skoppaði á milli leikmanna en það vantaði upp á að ná að koma boltanum á markið.

Loksins kom sigurmarkið. Hornspyrnur Karólínu voru að skapa mikinn usla og það var bara tímaspursmál hvenær það kæmi mark eftir eina slíka. Hún fleygði boltanum í boga inn í teiginn og beint á Hildi Antonsdóttur sem þrumuskallaði boltann í netið. Annað landsliðsmark hennar og það ótrúlega mikilvægt.

Austurríska liðið gerði sig aldrei líklegt til að jafna metin á meðan íslenska liðið fékk nokkur tækifæri til að bæta við.

Ísland vann sanngjarnan 2-1 sigur á Laugardalsvelli og er nú í öðru sæti D-riðils með 7 stig þegar tveir leikir eru eftir. Austurríki er í þriðja sæti með 4 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner