Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
banner
   sun 11. febrúar 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Kompany ósáttur með hliðarlínubann
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Vincent Kompany knattspyrnustjóri Burnley var svekktur eftir 3-1 tap á útivelli gegn Liverpool í gær.

Burnley sýndi fínar rispur en Liverpool var að lokum talsvert sterkari aðilinn og verðskuldaði sigurinn. Lærisveinar Kompany deila neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með Sheffield United sem stendur, þar sem liðin eiga ekki nema 13 stig eftir 24 fyrstu umferðir tímabilsins.

„Þetta hefur verið svona síðustu mánuði. Við erum að spila góðan fótbolta en náum aldrei í úrslitin. Ég er stoltur af því að þjálfa þessa leikmenn og við munum halda áfram að berjast," sagði Kompany.

„Ég hef oft komið á Anfield sem leikmaður en sjaldan fengið svona mikið af færum til að skora. Við þurftum að hafa heppnina með okkur í dag en hún var ekki á okkar bandi. Strákarnir börðust allan leikinn og ógnuðu marki Liverpool oft, en við þurfum að ná í stig.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við klúðrum mikið af færum en við megum ekki setja hausinn niður. Við þurfum að takast á við raunveruleikann og einbeita okkur að næstu áskorun. Leikmenn verða að halda í trúna um að við getum bjargað okkur frá falli, ég veit að ég hef þá trú. Við erum ekki of seinir."


Kompany fékk gult spjald í tapinu og verður því í hliðarlínubanni í næsta leik Burnley. Hann skilur ekkert í því hvers vegna hann var spjaldaður og tjáði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sig einnig um það í viðtali eftir leik.

„Ég held að ég hafi fengið gult spjald bara útaf því að Klopp fékk gult spjald. Dómarinn var búinn að gefa gult á Klopp þannig um leið og hann sá tækifæri þá gaf hann mér gult líka. Ég gerði samt ekki neitt nema að fórna höndum, eins og ég geri oft, og allt í einu fæ ég gult spjald.

„Þetta kom algjörlega upp úr þurru og núna missi ég af næsta leik. Það er ekkert vit í þessu spjaldi, hann gaf mér það bara til að jafna út gula spjaldið sem hann var búinn að gefa Klopp. Það þýðir samt ekkert að væla, við þurfum að einbeita okkur að næsta leik. Áfram gakk."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner