Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson skrifaði í gær undir samning við Plymouth sem leikur í ensku Championship-deildinni. Háttsettir aðilar hjá félaginu sáu hann sem fullkominn einstakling til að koma inn í hópinn á þessum tímapunkti.
Guðlaugur Victor er 33 ára og hefur leikið 44 landsleiki fyrir Ísland. Hann lék síðast fyrir Eupen sem féll úr belgísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Guðlaugur Victor er 33 ára og hefur leikið 44 landsleiki fyrir Ísland. Hann lék síðast fyrir Eupen sem féll úr belgísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Gulli Victor mun núna aftur leika undir stjórn goðsagnarinnar Wayne Rooney en hann tók við Plymouth í sumar.
„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Victor til Argyle. Ég þekki hann vel eftir að hafa unnið með honum hjá DC United og hann kemur með mikla reynslu í hópinn," sagði Rooney þegar skiptin voru tilkynnt.
Neil Dewsnip, yfirmaður fótboltamála hjá Plymouth, tjáði sig einnig um félagaskiptin en hann segir að íslenski leikmaðurinn sé fullkominn fyrir verkefnið.
„Victor er leikmaður sem njósna- og leikmannateymið og Wayne og Pete (þjálfarar liðsins) sáu sem fullkominn einstakling til að koma inn í hópinn og styrkja okkur varnarlega," segir Dewsnip.
„Hann er með reynslu frá Evrópu og er með tæknilega og taktíska getu sem hentar því kerfi sem við erum að vinna með. Hann er líka íslenskur landsliðsmaður sem mun koma með reynslu inn í okkar hóp. Við erum himinlifandi að styrkja leikmannahóp okkar með því að fá Victor inn og bjóðum við hann velkominn."
Guðlaugur Victor hefur víða komið við á ferli sínum; leikið á Englandi, Skotlandi, Hollandi, Svíþjóð, Danmörku, Sviss, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Belgíu.
Athugasemdir