Eitt það áhugaverðasta við þetta sumar er að Íslendingar hafa verið að flykkjast yfir til Englands, í enska boltann. Eins og staðan er núna, þá verða átta Íslendingar í enska boltanum næsta vetur, en hver veit? Kannski á eftir að bætast við á listann.
Hákon Rafn Valdimarsson (Brentford)
Aðalmarkvörður íslenska landsliðsins gekk í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford í janúar síðastliðnum. Hann á enn eftir að spila fyrsta keppnisleikinn með aðalliðinu en það hlýtur að styttast í að það gerist. Hann hefur allavega sýnt það með landsliðinu hversu góður hann er.
Hakon Valdimarsson keeping a clean sheet at Wembley against an almost full strength England side. ????????
— TalkBees (@talkbees_) June 7, 2024
Fair play. 22 years of age. A real future at Brentford. ????
Cloe Lacasse (Arsenal)
Eyjakonan raðaði inn mörkunum með ÍBV hér á landi áður en hún skipti yfir til Benfica árið 2019. Hún var einn öflugasti leikmaður efstu deildar kvenna áður en hún fór út. Á þeim tíma sem hún spilaði hérna þá fékk hún íslenskan ríkisborgararétt en hún gat ekki spilað með íslenska landsliðinu þar sem hún uppfyllti ekki kröfur FIFA til þess að spila með Íslandi. Cloe er í dag leikmaður Arsenal sem er eitt sterkasta liðið í úrvalsdeild kvenna á Englandi.
María Þórisdóttir (Brighton)
Gekk í raðir Brighton síðasta sumar eftir að hafa leikið með Chelsea og Manchester United. María er þrítugur varnarmaður með 71 landsleik að baki fyrir Noreg, en hún á íslenskan föður - handboltaþjálfarann Þóri Hergeirsson.
Dagný Brynjarsdóttir (West Ham)
Er að koma til baka eftir að hafa eignast sitt annað barn. Dagný sem gegnir stöðu fyrirliða hjá West Ham, var í hóp hjá liðinu í lokaumferð ensku WSL-deildarinnar gegn Tottenham á síðustu leiktíð. Dagný gekk í raðir West Ham árið 2021 en áður spilaði hún fyrir Selfoss, Portland Thorns, Bayern München, Val, KFR/Ægir og Florida State-háskólann í Bandaríkjunum. Hún er í mikils metum hjá Lundúnafélaginu.
Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
Jóhann Berg skrifaði undir nýjan eins árs samning við Burnley og leikur með liðinu í Championship-deildinni næsta vetur. Þessi 33 ára gamli íslenski landsliðsfyrirliði tilkynnti eftir tímabilið að hann myndi yfirgefa enska félagið þar sem hann var að verða samningslaus en það náðist svo samkomulag um áframhaldandi samstarf. Jóhann Berg gekk til liðs við félagið árið 2016 og hefur leikið 227 leiki og skorað 14 mörk.
https://t.co/5wrq0MebYI pic.twitter.com/Ugi5NDv2IF
— Johann B Gudmundsson (@Gudmundsson7) July 6, 2024
Stefán Teitur Þórðarson (Preston)
Preston keypti Stefán Teit frá Silkeborg í Danmörku þar sem hann átti hálft ár eftir af samningi og var Preston sagt greiða um 700 þúsund evrur fyrir íslenska landsliðsmanninn. Stefán hafði verið hjá Silkeborg í fjögur ár, skrifaði undir þar haustið 2020 eftir gott tímabil með uppeldisfélaginu ÍA. Stefán Teitur, sem er 25 ára gamall miðjumaður, var einnig orðaður við Derby County og QPR áður en hann gekk í raðir Preston sem endaði í tíunda sæti Championship á síðustu leiktíð.
Arnór Sigurðsson (Blackburn)
Skagamaðurinn er á leið inn í sitt annað tímabil með Blackburn. Hann átti góða spretti á síðustu leiktíð en glímdi líka við meiðsli sem truflaði hann. Arnór hefur sýnt það á síðustu árum hversu góður leikmaður hann er og vonandi mun hann taka næsta skref með Blackburn á komandi tímabili. Liðið stefnir eflaust á það að eiga betra tímabil eftir að hafa endað í 19. sæti Championship á síðustu leiktíð.
Guðlaugur Victor Pálsson (Plymouth)
Victor gekk í raðir Plymouth í gær en það er óhætt að tala um skemmtileg félagaskipti. Hann er aftur kominn undir stjórn goðsagnarinnar Wayne Rooney, eftir að þeir unnu saman hjá DC United í Bandaríkjunum. Guðlaugur Victor er 33 ára og hefur leikið 44 landsleiki fyrir Ísland. Hann lék síðast fyrir Eupen í Belgíu en náði ekki að koma í veg fyrir fall liðsins úr belgísku úrvalsdeildinni. Guðlaugur Victor hefur víða komið við á ferli sínum; leikið á Englandi, Skotlandi, Hollandi, Svíþjóð, Danmörku, Sviss, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Belgíu.
Willum Þór Willumsson (Birmingham)
Það er talað um að Birmingham verði með ákveðið svindlið í ensku C-deildinni á næstu leiktíð. Félagið hefur eytt háum fjárhæðum eftir fall sitt úr Championship og ætlar beint aftur upp. Willum varð dýrasti leikmaður í sögu ensku C-deildarinnar þegar félagið keypti hann frá Go Ahead Eagles fyrir 4 milljónir evra. Willum var eftirsóttur í sumar, hann hefur vakið athygli fyrir öfluga frammistöðu í Hollandi. Stóru félögin í Hollandi horfðu til hans og þá var áhugi á honum á Ítalíu sem og frá öðrum enskum félögum. Þrátt fyrir að hafa fallið úr ensku B-deildinni er Birmingham mjög spennandi félag og líta stuðningsmennirnir svo á að liðið eigi að vera í ensku úrvalsdeildinni.
An impressive first 45 in a #bcfc shirt for Willum Willumsson today. Says conversations with Chris Davies and Craig Gardner earlier this week quickly convinced him to choose St Andrew’s. pic.twitter.com/A7yTyGgBiM
— Richard Wilford (@wilfordwm) July 20, 2024
Jason Daði Svanþórsson (Grimsby Town)
Mögulega áhugaverðustu félagaskipti sumarsins voru þegar Jason Daði samdi við Grimsby Town í ensku D-deildinni. Enska félagið keypti hann frá Breiðabliki þar sem hann átti þrjá mánuði eftir af samningi. Jason er 24 ára og hefur verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar undanfarin ár. Grimsby spilar í ensku D-deildinni, liðið var ekki langt frá því að falla niður í utandeildina í vor en hélt sæti sínu í deildinni. Það er ekki oft sem félög svona neðarlega á Englandi horfa í Bestu deildina en Grimsby gerir hlutina öðruvísi. Þjálfari liðsins kom til Íslands til að horfa á Jason spila og heillaðist af honum.
Það verður virkilega skemmtilegt að fylgjast með öllum þessum leikmönnum í enska boltanum á komandi tímabili, en vonandi fara enn fleiri Íslendinga í þennan skemmtilega kúltúr á næstu vikum.
Athugasemdir