Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
banner
   fim 22. ágúst 2024 17:00
Elvar Geir Magnússon
Óhræddur við að leita ráða hjá leikmönnum
Fabian Hurzeler stjóri Brighton.
Fabian Hurzeler stjóri Brighton.
Mynd: Getty Images
Hurzeler náði mögnuðum árangri með St. Pauli.
Hurzeler náði mögnuðum árangri með St. Pauli.
Mynd: Getty Images
31 árs gamall er Fabian Hurzeler yngsti stjóri sem starfað hefur í ensku úrvalsdeildinni. Hann stýrir Brighton og segist óhræddur við að leita ráða frá reynslumestu leikmönnum hópsins.

Brighton vann 3-0 sigur gegn Everton í fyrsta deildarleik Hurzeler og mun mæta Manchester United um helgina.

Danny Welbeck sem skoraði eitt af mörkunum gegn Everton er fyrrum leikmaður United og sem dæmi er ekki ólíklegt að Hurzeler fái einhver ráð frá honum. Welbeck er tveimur árum eldri en Hurzeler.

„Eitt af einkennum stjórnarhátta minna er að ég hlusta á reynslumiklu leikmennina, vegna þess að ég get lært frá þeim," segir Hurzeler sem stýrði St. Pauli upp í þýsku Bundesliguna á síðasta tímabili og var í kjölfarið ráðinn til Brighton. Hann lagði skóna á hilluna 23 ára til að einbeita sér að þjálfun.

„Ég er mjög opinn fyrir ráðleggingum og leikmenn vita það. Þeir hafa upplifað meira inni á vellinum en ég. Ég er ekki hræddur við að segja það því það er satt. Ég get lært af þeim og þeirra skoðun hjálpar mér að undirbúa leiki."

„Danny Welbeck spilaði fyrir Manchester United og hefur kannski þekkingu um félagið og hvernig leikmenn bregðast við. Það væri kjánalegt að nýta mér ekki þá vitneskju. Auðvitað er það svo á endanum mitt starf að taka ákvarðanir og undirbúa liðið á réttan hátt."
Athugasemdir
banner
banner
banner