Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
banner
   lau 24. ágúst 2024 16:12
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Afturelding vann í Eyjum - Dramatík í Laugardal
Lengjudeildin
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Þróttur.is
Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Lengjudeild karla, þar sem Afturelding vann flottan sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á meðan Þróttur R. gerði dramatískt sigurmark gegn Keflavík í Laugardalnum.

Lestu um leikinn: ÍBV 2 -  3 Afturelding

Eyjamenn byrjuðu betur gegn Aftureldingu og tóku forystuna með góðu marki frá Vicente Valor á 25. mínútu.

Mosfellingar reyndu að sækja en áttu í vandræðum með að komast framhjá pressu ÍBV. Þeir svöruðu þó fyrir sig með marki undir lok fyrri hálfleiks þar sem Elmar Kári Enesson Cogic var á ferðinni. Elmar skoraði eftir góða sókn Aftureldingar sem opnaði vörn ÍBV upp á gátt.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og fengu gott færi áður en Oliver Heiðarsson tók forystuna á ný með laglegu marki eftir gott einstaklingsframtak. Oliver vann boltann hátt uppi á vellinum og skoraði sjálfur með góðu skoti til að endurheimta forystuna.

Mosfellingar náðu að svara afar vel fyrir sig þar sem Georg Bjarnason jafnaði fyrst með skalla eftir hornspyrnu áður en Arnór Gauti Ragnarsson skoraði eftir skyndisókn.

Mörkin skoraði Afturelding með þriggja mínútna millibili og blésu Eyjamenn til sóknar í kjölfarið.

ÍBV fékk gott færi til að jafna undir lokin en Mosfellingum tókst að bjarga sér og landa dýrmætum sigri.

ÍBV er áfram á toppi Lengjudeildarinnar, með 35 stig eftir 19 umferðir - einu stigi fyrir ofan Fjölni.

Afturelding fer upp í 30 stig og er í harðri baráttu um umspilssæti um sæti í Bestu deildinni á næsta ári.

ÍBV 2 - 3 Afturelding
1-0 Vicente Valor '25
1-1 Elmar Kári Enesson Cogic '44
2-1 Oliver Heiðarsson '62
2-2 Georg Bjarnason '72
2-3 Arnór Gauti Ragnarsson '75

Í Laugardalnum byrjuðu heimamenn í Þrótti talsvert betur gegn Keflavík og tóku forystuna eftir hálftíma, þegar Liam Daði Jeffs komst inn í slæma sendingu og skoraði gott mark eftir að hafa leikið á markvörð Keflvíkinga.

Lestu um leikinn: Þróttur 3 - 2 Keflavík

Þróttarar fóru inn í leikhléð með verðskuldaða forystu en Keflvíkingar mættu grimmir í seinni hálfleikinn og jöfnuðu metin snemma, þegar Ari Steinn Guðmundsson skoraði stórbrotið mark með glæsilegu skoti utan vítateigs.

Heimamenn endurheimtu forystuna eftir aukaspyrnu á 60. mínútu þegar Emil Skúli Einarsson kom boltanum yfir marklínuna eftir mikið klafs innan vítateigs.

Þróttur komst nálægt því að auka forystuna en tókst ekki, þess í stað jöfnuðu Keflvíkingar eftir slæm mistök hjá Þórhalli Ísaki Guðmundssyni, markverði Þróttar. Mihael Mladen skoraði þá úr auðveldu færi eftir góðan undirbúning frá Sindra Snæ Magnússyni.

Staðan var þá orðin jöfn, 2-2, og hélst hún þannig allt þar til í uppbótartíma þegar heimamenn skoruðu dramatískt mark. Sigurður Steinar Björnsson virðist þá hafa skorað eftir góða fyrirgjöf frá Eiríki Þorsteinssyni Blöndal.

Keflvíkingar reyndu að nýta síðustu mínúturnar til að skora þriðja jöfnunarmark sitt í leiknum en tókst ekki. Gestirnir voru ósáttir að leikslokum eftir að dómari leiksins flautaði af þegar Keflavík var með boltann innan vítateigs Þróttara, en lokatölur urðu 3-2.

Þessi dramatíski sigur hjá Þrótti heldur liðinu á lífi í baráttunni um umspilssæti, á meðan Keflavík missti hér af gullnu tækifæri til að blanda sér í titilbaráttuna. Keflvíkingar eru í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir toppliði ÍBV.

Þróttur R. 3 - 2 Keflavík
1-0 Liam Daði Jeffs '30
1-1 Axel Ingi Jóhannesson '53
2-1 Emil Skúli Einarsson '65
2-2 Mihael Mladen '79
3-2 Sigurður Steinar Björnsson '94
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner