Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 19. febrúar 2024 21:16
Ívan Guðjón Baldursson
Calzona tekinn við Napoli (Staðfest) - Fyrsti leikur gegn Barcelona
Mynd: EPA
Ítalíumeistarar Napoli hafa staðfest þriðju þjálfaraskiptin á tímabilinu. Walter Mazzarri er rekinn eftir þrjá mánuði í starfi og hefur Francesco Calzona verið ráðinn í staðinn.

Mazzarri tók við af Rudi Garcia í nóvember, en Garcia hafði sjálfur tekið við félaginu af Luciano Spalletti í júní og entist því ekki nema um fimm mánuði í starfi.

Nýr þjálfari Napoli hefur verið að gera frábæra hluti við stjórnvölinn hjá slóvakíska landsliðinu og fær núna tækifæri hjá Ítalíumeisturunum, en hann hefur starfað fyrir félagið áður.

Calzona var partur af þjálfarateymi Napoli frá 2015 til 2018 og var svo tæknilegur þjálfari liðsins tímabilið 2021-22, áður en hann var ráðinn til Slóvakíu.

Hann kom Slóvakíu á EM og hefur fengið leyfi frá slóvakíska fótboltasambandinu að þjálfa landsliðið samhliða Napoli. Calzona mun því fara með Slóvakíu á EM í sumar ef ekkert breytist.

Calzona fær verðugt verkefni hjá Napoli, þar sem Ítalíumeistararnir eru komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar en gengið í ítölsku deildinni hefur verið herfilegt. Napoli situr í níunda sæti með 36 stig eftir 24 umferðir, níu stigum frá meistaradeildarsæti.

Calzona stjórnar æfingu Napoli á morgun og mun svo stýra liðinu á heimavelli gegn Barcelona miðvikudagskvöldið í svakalegri eldskírn.

Mazzarri, 62 ára, er þá aftur orðinn án starfs eftir að hafa stýrt Cagliari, Torino, Watford og Inter á síðasta áratugi. Þar áður þjálfaði hann Napoli í fjögur ár við góðan orðstír, eftir að hafa gert frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Sampdoria.


Athugasemdir
banner
banner
banner