Greenwood eftirsóttur - Isak til PSG? - Chelsea vill gera skiptidíl við Inter
   lau 21. september 2024 21:09
Ívan Guðjón Baldursson
Frakkland: Reims stöðvaði sigurgöngu PSG
Mynd: PSG
Mynd: EPA
Franska stórveldið Paris Saint-Germain hafði unnið fyrstu fjóra deildarleikina á nýju tímabili í efstu deild franska boltans en það breyttist þegar liðið heimsótti Reims í kvöld.

Þar lenti PSG óvænt undir snemma leiks, þegar Keito Nakamura kom heimamönnum yfir strax á níundu mínútu.

Leikurinn var jafn og einkenndist af mikilli baráttu þar sem bæði lið áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi.

Gæðin í liði PSG fengu þó að njóta sín í síðari hálfleik þegar Joao Neves lagði upp jöfnunarmark leiksins fyrir Ousmane Dembélé á 68. mínútu.

Hvorugu liði tókst að gera sigurmark og var niðurstaðan 1-1 jafntefli í jöfnum slag.

PSG er á toppi deildarinnar með 13 stig eftir 5 umferðir, en Reims er komið með 8 stig.

Rennes gerði þá 1-1 jafntefli við Lens í dag eftir að Lille hafði gert 3-3 jafntefli við Strasbourg.

Lens gerði jöfnunarmarkið á 96. mínútu á útivelli gegn Rennes og er í fjórða sæti eftir jafnteflið. Lens er með 9 stig og á enn eftir að tapa deildarleik á tímabilinu.

Reims 1 - 1 PSG
1-0 Keito Nakamura ('9)
1-1 Ousmane Dembele ('68)

Rennes 1 - 1 Lens
1-0 Arnaud Kalimuendo ('24, víti)
1-1 Mbala Nzola ('96)
Athugasemdir
banner